Anna kom sér fyrir í útibúi Wendy‘s í Kaliforníu og pantaði sér gómsætan kryddaðan baunapottrétt. Þegar hún var tiltölulega nýbyrjuð að borða sagðist hún hafa bitið í eitthvað hart og brugðið verulega þegar hún fór að skoða málið betur. Í ljós kom að afskorinn fingur var í réttinum.
Rannsókn lögreglu leiddi í ljós að þetta var sannarlega fingur af manneskju sem hafði ratað í pottréttinn. En hvernig þetta gat gerst var hulin ráðgáta, að minnsta kosti fyrst um sinn, enda hafði enginn starfsmaður skyndibitakeðjunnar misst fingur og enginn kannaðist við að hafa komið honum fyrir í réttinum.
Eðli málsins samkvæmt tóku forráðamenn Wendy‘s málið alvarlega, enda átti keðjan yfir höfði sér margra milljóna dollara lögsókn.
Þeir fengu sína bestu lögfræðinga í málið og var fingurinn sendur í ítarlega rannsókn. Í ljós kom að Anna hafði ekki bitið í fingurinn og þá bar hann engin merki þess að hafa verið eldaður í þrjár klukkustundir eins og pottrétturinn. Lögfræðingunum og lögreglu fór því að gruna að maðkur væri í mysunni.
Svo fór að húsleit var gerð á heimili Önnu í Las Vegas og var eiginmaður hennar, Jamie Placencia, meðal annars tekinn til yfirheyrslu. Í yfirheyrslunni viðurkenndi Jamie að fingurinn væri af kollega hans, Brian Rossiter, sem hafði misst hann í vinnuslysi.
Jamie keypti hinn afskorna fingur af Brian fyrir hundrað dollara og fór með hann heim. Anna skellti fingrinum í ofninn og eldaði hann í dágóða stund áður en hún fór með hann á Wendy‘s í þeirri von að hún fengi bætur frá skyndibitakeðjunni.
Brian var aldrei ákærður vegna málsins og taldi lögregla að hann hafi ekki haft neina vitneskju um ráðabrugg þeirra Önnu og Jamie. Anna og Jamie voru hins vegar ákærð vegna málsins og fékk Anna níu ára dóm og Jamie tólf ára dóm. Dómurinn yfir Önnu var síðar styttur í fjögurra ára fangelsi.