Lögreglumennirnir voru örlítið efins um sögu mannsins en féllust á að fara með honum í íbúðina sem hann hafði að sögn sloppið úr. Þar hittu þeir fyrir rólegan 31 árs gamlan mann að nafni Jeffrey Dahmer. Þá grunaði ekki þá að hann væri einn af afkastamestu raðmorðingjum sögunnar í Bandaríkjunum.
Dahmer yppti bara öxlum og sagði að þetta væri allt saman einhver misskilningur. Lögreglumennirnir voru því á leið út úr íbúðinni þegar þeir ráku augun í polaroidmyndir á borðinu. Á þeim sáust afrifnir og sundurhlutaðir líkamshlutar.
Dahmer var því handtekinn samstundis og brást rólegur við því. Skömmu síðar játaði hann að hafa myrt bæði pilta og unga karla og það marga.
Þegar upp var staðið kom í ljós að þessi fyrrum starfsmaður í súkkulaðiverksmiðju hafði myrt 17 pilta og unga menn frá 1978-1991. Líklegt má telja að hann hefði myrt fleiri ef lögreglan hefði ekki komið heim til hans þennan hlýja júlídag 1991.
Íbúðin hans reyndist vera sannkölluð hryllingsíbúð. Auk ljósmynda af líkamshlutum var fullt af líkhlutum í íbúðinni. Í frystinum og ísskápnum voru nokkur mannshöfuð.
Í hraðsuðukatlinum voru tvær hendur og getnaðarlimur og má rétt ímynda sér viðbrögð lögreglumannanna þegar þeir kíktu ofan í hann. Tvær hauskúpur voru fyrir ofan tölvuna. Í stórri tunnu, sem stóð úti í horni í svefnherberginu, flutu líkhlutar í efnablöndu.
Ummerkin bentu til að Dahmer hefði borðað hluta af fórnarlömbum sínum.
Lögreglan fann hluta af 11 piltum og mönnum. Eitt líkið var af 14 ára pilti að nafni Konerak Sinthasmophone. Síðar kom í ljós að honum hafði tekist að sleppa úr íbúð Dahmer en Dahmer var alveg á hælum hans. Pilturinn fannst nakinn á götunni skammt frá íbúð Dahmer og það blæddi úr endaþarmi hans. Dahmer sagði lögreglunni að pilturinn væri kærastinn hans og trúði lögreglan því og skildi piltinn eftir hjá Dahmer. Þetta sama kvöld drap hann piltinn, skar líkið í hluta og hélt höfuðkúpunni eftir sem minjagrip.
Fyrsta morðið framdi hann 1978 en þá lokkaði hann 18 ára puttaferðalang til sín og drap. Hann hlutaði líkið síðan í sundur og gróf líkamshlutana í garðinum.
Á næstu árum sóttu sífellt fleiri hugsanir á Dahmer um að myrða. Hann sótti hommabari og pikkaði unga menn upp þar. Hann gaf þeim töflur og deyfði þannig áður en hann kyrkti þá heima hjá sér. Oft misnotaði hann lík þeirra kynferðislega áður en hann hlutaði þau í sundur.
Honum fannst aldrei neitt viðbjóðslegt við að myrða eða hluta lík í sundur. Þess í stað varð hann háður því. Hann varð einnig háður því að taka myndir af fórnarlömbunum á hinum ýmsu stigum ódæðisverkanna. Með því gat hann endurupplifað ódæðisverk sín.
Að lokum fór hann að hugsa um að borða líkin. Hann byrjað að smakka, af forvitni einni saman sagði hann. Að lokum vegna þess að hann vildi finna að „þeir væru hluti af honum“. „Ég vildi bara hafa þá nærri mér,“ sagði hann.
Hann var fundinn sekur um 17 morð og dæmdur í 15 falt lífstíðarfangelsi.
Þann 28. nóvember 1994 réðst samfangi hans á hann og barði með járnstöng. Dahmer var á lífi þegar fangaverðir fundu hann en lést klukkustund síðar.