Þegar líkaminn telur niður síðustu klukkustundir lífsins, þá getur hann sent skýr merki um það. Julie McFadden, sem starfar á líknardeild, skrifaði bókina „Nothing to Fear: Demystifying Death to Live More Fully“ en í henni reynir hún að hjálpa fólki að sigrast á óttanum við dauðann.
Unilad skýrir frá þessu og segir að samkvæmt því sem McFadden segi, þá sendi líkaminn oft frá sér þrenn skilaboð þegar líður að dauðastundinni.
Dauðahljóðið – Þetta er gúrglandi hljóð sem myndast þegar viðkomandi getur ekki lengur kyngt eða hóstað og slím og vökvi safnast fyrir í kokinu. Hljóðið myndar þegar loft fer framhjá slíminu og vökvanum. Það getur verið frekar óþægilegt að heyra þetta hljóð en það er algjörlega eðlilegt að það heyrist á síðustu klukkustundum lífsins.
Breyttur andardráttur – Andardrátturinn verður hægur, óreglulegur og það geta verið langar pásur á honum, eins og viðkomandi andi ekki lengur. Í lokin getur „kviðarholsöndun“ hafist og þá geta andvarpandi hreyfingar virst dramatískar en þær eru ekki sársaukafullar.
Dauðastundin – Þegar meðvitundin hverfur geta augu og munnur staðið opinn en ekki í fókus. Augnaráðið getur orðið gljáandi og tómlegt, McFadden kallar það „dauðastöruna“. Þrátt fyrir að manneskjan sýni engin viðbrögð, þá getur viðkomandi enn heyrt og hugsanlega fundið að fólk er til staðar.
McFadden leggur áherslu á að þessi merki sjáist ekki hjá öllum. Sumir deyja skyndilega án nokkurra fyrirboða en aðrir deyja hægt.