fbpx
Þriðjudagur 15.júlí 2025
Pressan

Mætti alblóðugur á lögreglustöð eftir að hafa myrt tengdamóður sína og játaði – Samt var hann sýknaður með ævintýralegum hætti

Pressan
Mánudaginn 14. júlí 2025 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 24. maí árið 1987 í Toronto í Kanada sofnaði hinn 23 ára gamli Kenneth Park við sjónvarpið heima hjá sér. Þegar hann vaknaði aftur var enn nótt, en hann var ekki lengur heima hjá sér. Hann var með hníf í höndunum og fyrir framan hann lá tengdamóðir hans, Barbara Woods, í andarslitunum. Hann var alblóðugur.

Einhvern veginn hafði hann ferðast 22 kílómetra, farið heim til tengdaforeldra sinna, myrt tengdamóður sína og reynt að bana tengdaföður sínum. Honum var brugðið. Hann rauk út í bíl og ók rakleiðis upp á næstu lögreglustöð þar sem hann tilkynnti vakthafandi lögreglumönnum: Ég held að ég hafi drepið eitthvað fólk.

Tengdafaðir hans, Dennis Wood, hafði misst meðvitund eftir að Kenneth þrengdi að öndunarvegi hans, en hann lifði þó af. Tengdamóðirin, Barbara, var ekki eins heppin enda hafði hún verið barin í höfuðið með felgulykli, svo heiftarlega að hún höfuðkúpubrotnaði og fékk heilablæðingu, og eins hafði hún verið stungin fimm sinnum.

Kenneth var ítrekað yfirheyrður vegna málsins en vörn hans var ávallt sú sama – hann hefði engar minningar um hvað átti sér stað og auk þess hafði hann enga ástæðu til að vilja tengdaforeldra sína feiga. Hann sofnaði heima hjá sér og vaknaði sem morðingi.

Margir hefðu haldið að svona málsvörn myndi ekki halda vatni fyrir dómstólum. Annað kom á daginn. Kenneth var sýknaður þar sem kviðdómi þótti sannað að hann hefði verið að ganga í svefni, og það þótt að Kenneth hafi fyrst ekið 22 kílómetra, frá sínu heimili að heimili tengdaforeldranna. Kenneth fékk því um frjálst höfuð að strjúka og átti eftir að lifa nokkuð venjulegu lífi og eignaðist meðal annars sex börn.

Streita, svefnleysi og kvíði

Sálfræðingur gaf skýrslu fyrir dómstólum og útskýrði að Kenneth ætti langa sögu um svefnröskun og svefngang. Á þessum tíma hafi hann glímt við mikla streitu þar sem hann var atvinnulaus og hafði komið sér í miklar veðmálaskuldir. Líklega hafi hann verið að hugsa um að heimsækja tengdaforeldra sína til að biðja þau um aðstoð rétt áður en hann sofnaði, reis á fætur, klæddi sig í jakkann, settist undir stýri og ók 22 kílómetra þar sem hann kyrkti Dennis þar til hann missti meðvitund, réðst á Barböru með felgulykli og stakk þau svo bæði með eldhúshníf. Sálfræðingurinn kom með þá kenningu að eftir að Kenneth kom á heimili tengdaforeldra sinna, um miðja nótt, hafi þeim verið brugðið og reynt að koma vitinu fyrir hann. Þá hafi hann orðið árásargjarn með fyrrgreindum afleiðingum.

Kenneth tókst að sannfæra kviðdóminn. Hann var ekki vakandi, ekki með meðvitund, þar hefði hann ekki verið ábyrgur gjörða sinna. Auk þess væri hann ekki geðveikur svo engin ástæða þótti til að dæma hann til öryggisvistunar. Kenneth fékk því að ganga út í daginn og halda lífinu áfram.

Hins vegar vakti málið mikinn óhug í Kanada. Þótt kviðdómur hafi trúað Kenneth þá gerðu það þó ekki allir. Sérfræðingar hafa þó bent á að svefnröskunin sem Kenneth glímdi við, somnambulism, valdi því að sofandi manneskja gengur í ástandi sem er eiginlega milli svefns og vöku. Einstaklingar með þessa röskun geta gengið um og athafnað sig eins og þeir væru vakandi en þeir eru þó með takmarkaða meðvitund, mynda ekki minningar og þá dreymir. Dæmi séu um að fólk eldi heilu máltíðirnar, fari á rúntinn og lendi jafnvel í átökum við annað fólk, stundum með hörmulegum afleiðingum.

Kenneth átti þarna 5 mánaða barn, glímdi við fjárhagsáhyggjur, streitu og mikinn kvíða – svona andlegt ástand sé til þess fallið að auka einkenni röskunarinnar. Þar með er ekki útilokað að Kenneth hafi vissulega verið vakandi og það styður eins við þá kenningu að hann var staðfastur allt frá því að hann rankaði við sér og leitaði rakleiðis á næstu lögreglustöð. Þeir sem eru tortryggnir velta því þó fyrir sér hvort Kenneth hafi þarna verið klókur og síðan orðið svo heppinn að næla sér í jafnvel klóknari verjanda. Líklega verður aldrei hægt að sanna það svo óumdeilt sé að Kenneth hafi verið sofandi, en kviðdómur og síðar áfrýjunardómstóll töldu líkurnar það miklar að ekki væri hægt að sakfella unga manninn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 1 viku

Rannsókn sýnir samhengi á milli kaffidrykkju og öldrunar

Rannsókn sýnir samhengi á milli kaffidrykkju og öldrunar
Pressan
Fyrir 1 viku

Las sér til um tannlækningar á Internetinu og opnaði tannlæknastofu

Las sér til um tannlækningar á Internetinu og opnaði tannlæknastofu