Óhugnalegt myndband úr yfirheyrslu lögreglu í Bretlandi hefur vakið athygli víða þar í landi eftir að mál Scott Paterson var til umfjöllunar í nýjum sjónvarpsþætti, 24 Hours in Police Custody, undir titlinum „Úthverfaslátrarinn (e. The Butcher of Suburbia)“.
Í yfirheyrslu sinni játaði hinn 45 ára gamli Paterson það í rólegheitunum að hafa myrt leigusala sinn, hina 74 ára gömlu Anette Smith. Paterson hafði leigt herbergi hjá Smith í húsi hennar í bænum Fairfield í Bedfordshite í áratug þegar hann lét til skara skríða. Morðið átti sér stað þann 8. nóvember 2023.
Smith var orðin heilsuveil og hafði Paterson annast hana að einhverju leyti á meðan hún jafnaði sig eftir vægt heilablóðfall. Í áðurnefndri yfirheyrslu segir hann að eitthvað hafi skyndilega „smollið innra með honum“ og hann hafi skyndilega ákveðið að koma Smith fyrir kattarnef. Það gerði hann með því að kæfa hana með kodda.
Í yfirheyrslunni segir Paterson að hann hafi fyllst smá efasemdum á meðan ódæðinu stóð en svo hafi hann ákveðið að klára verkið.
Fyrst um sinn kom Paterson líki Smith fyrir undir stiga á heimili hennar en svo hafi hann ákveðið að losa sig við það í ljósi þess að þá kæmist hann kannski upp með morðið. Hann starfaði sem slátrari og hann nýtti þá þekkingu sína til þess að skera lík Smith smátt og smátt niður í parta og koma þeim fyrir víðsvegar um bæinn sem þau bjuggu í eins og í geymslum og almenningsruslatunnum. Hið óhugnalega verk tók hann nokkrar vikur og segist hann hafa fylgst velgju á meðan því stóð.
Paterson komst upp með morðið í nokkra mánuði en hann svaraði meðal annars tölvupóstum Smith sem ættingjar og vinir sendu henni. Að lokum fannst ættingjum eitthvað grunsamlegt við svör Smith og létu lögregluna vita. Eftir lögregluheimsókn á heimilið var Paterson fljótlega handtekinn og játaði hann morðið greiðlega.