Ástralskur táningur sem hvarf eftir að hafa skellt sér á brimbretti fannst sólarhring síðar á lífi á eyðieyju um 13 kílómetrum frá. Ástralskir fjölmiðlar fjalla um málið og segja það kraftaverki líkast.
Hinn 19 ára gamli Darcy Deefholts skellti sér á brimbretti á strönd nærri smábænum Wooli á norðvesturströnd Ástralíu eftir hádegi á miðvikudag. Hann skilaði sér hins vegar ekki heim, fjölskyldu hans til mikillar skelfingar.
Faðir hans, Terry Deefholts, sendi út ákall á samfélagsmiðla um að sonur hans væri horfinn og í kjölfarið fór umfangsmikil leit í gang. Nóttin leið og eins og gefur að skilja var fjölskylda táningsins orðin verulega uggandi yfir örlögum hans.
En eins og fyrir kraftaverk fannst Darcy hins vegar á lífi á eyðieyju, þrettán kílómetrum frá landi. Svo virðist sem pilturinn hafi lent í öflugu útsogi sem hafi endað með því að hann rak að umræddri eyju.
Segja má að hann hafi fundist óvenju fljótt en ástæðan var sú að lík hafði fundist á eyjunni talsvert fyrr, sem rekið hafði frá meginlandinu, og því vissi samfélagið í Wooli að þangað, á þessa tilteknu eyðieyju, liggja sterkir straumar.