MarketWatch segir að vegna tollastríðsins séu bandarískir neytendur farnir að hamstra fatnað og gúmmískó af ótta við að verðið muni snarhækka vegna tollastríðsins en Trump hefur sérstaklega beint sjónum sínum að Asíuríkjum.
Miðillinn ræddi meðal annars við Bandaríkjamann á fertugsaldri sem sagðist hafa vaknað upp við vondan draum þegar hann skoðaði merkimiðana á fatnaðinum sínum: „Ég vissi að ég þyrfti að flýta mér að fylla fataskápinn. Ég skoðaði merkimiðana í fötunum mínum og það stendur „Made in Indonesia“ á flestum. Indónesía fékk 34% toll á sig, svo ég er ánægður með að hafa orðið fyrri til með að kaupa nýja skó.“
97% af þeim skóm, sem Bandaríkjamenn nota dags daglega, eru að sögn MediaWatch framleiddir í ríkjum á borð við Kína, Víetnam og Indónesíu en þau lentu öll illa undir tollhamri Trump.
Greining frá Footwear Distributors gerir ráð fyrir að vinnuskór, framleiddir í Kína, muni hækka um sem nemur 5.000 íslenskum krónum. Hlaupaskór, framleiddir í Víetnam, munu hækka úr sem nemur 20.000 krónum í 28.000 krónur.
Brian Marks, lektor við New Haven háskólann, sagði það ekki endilega skynsamlegt að hamstra núna. ástæðan er að hans sögn sú að óvissan varðandi efnahagsmál heimsins er svo mikil að hugsanlegur ávinningur af því að spara nokkur þúsund krónur núna, geti horfið eftir nokkra mánuði ef kreppa skellur á Bandaríkjunum.