fbpx
Laugardagur 02.mars 2024
Pressan

Börnin úr myndbandinu við lagið Runaway Train sem enn er saknað

Pressan
Föstudaginn 9. febrúar 2024 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 1992 gaf bandaríska rokksveitin Soul Asylum út lagið Runaway Train. Lagið sem slíkt var grípandi, naut vinsælda og fékk meðal annars Grammy-verðlaun árið 1993 sem besta rokklagið. En það sem vakti jafnvel enn meiri athygli var tónlistarmyndband sveitarinnar við lagið.

Í myndbandinu birtust myndir af 36 ungmennum sem var saknað. Mörg þeirra höfðu einfaldlega strokið að heiman og skilað sér aftur einhverjum vikum síðar. Sum sáu meira að segja myndbandið og sneru heim aftur á meðan vitað er til þess að önnur voru myrt, til dæmis Jacob Wetterling en mál hans leystist ekki fyrr en árið 2016.

En enn þann dag í er nokkurra barna eða ungmenna sem birtust í myndbandinu enn saknað.

Sérstakar útgáfur af myndbandinu voru gerðar fyrir aðra markaði, til dæmis Bretland og Ástralíu, þar sem myndir af ungmennum þaðan birtust.

Texti lagsins sem slíkur segir ekki beint frá týndum ungmennum heldur vísar til baráttu söngvara sveitarinnar, David Pirner, við þunglyndi. Fyrsta setning lagsins, „Call you up in the middle of the night“, vísar til vinar Davids sem var vanur að svara símanum hvenær sem er sólarhringsins þegar David þurfti á honum að halda.

DV fer hér yfir það sem vitað er um þessi börn sem enn er saknað og birtust í upprunalega myndbandi sveitarinnar sem kom út í Bandaríkjunum.

Í þessari umfjöllun er fjallað um þunglyndi og sjálfsvíg. Ef ein­stak­ling­ar glíma við sjálfs­vígs­hugs­an­ir er bent á Hjálp­arsíma Rauða kross­ins 1717 og netspjall Rauða krossins 1717.is. Opið allan sólarhringinn. Einnig má hafa sam­band við Píeta-sam­tök­in sem veita ókeyp­is ráðgjöf í síma 552-2218, allan sólarhringinn. Netspjall Heilsuveru þar sem svarar hjúkrunarfræðingur er líka opið frá kl.8-22 alla daga. Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi má fá stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöð og hjá Pieta samtökunum.

Byron Page

Byron var 17 ára þegar hann sást síðast á strætóstoppistöð í Los Angeles árið 1992. Vinir hans sögðu að hann hefði ætlað að fara í geisladiskabúð í um 30 kílómetra fjarlægð í vesturhluta Hollywood. Byron kom aldrei aftur heim og hefur ekki sést síðan. Starfsmenn verslunarinnar minntust þess ekki að hafa séð hann. Ekki er vitað til þess að Byron hafi glímt við andlega erfiðleika. Þegar hann hvarf var stutt þar til hann fengi bílpróf, hann stóð sig vel í námi og framtíðin virtist björt. Ekkert er vitað um afdrif hans.

Kimberly Sue Doss

Kimberly fæddist árið 1966 en hún hvarf árið 1982, 16 ára gömul. Hún var búsett í Texas en hafði farið til Iowa til að heimsækja föður sinn. Lítið er vitað um mál hennar en ýmsum kenningum hefur verið varpað fram. Jafnvel leikur grunur á að henni hafi verið rænt og hún neydd í vændi á sínum tíma. Þá er ekki útilokað að hún hafi hreinlega tekið upp nýtt nafn og auðkenni. Kimberly skilaði sér aldrei til föður síns en sást síðast á strætóstoppistöð í Davenport í Iowa.

Shawn Betz

Shawn var aðeins ellefu ára gamall þegar hann hvarf í Kaliforníu árið 1988. Hann sagði móður sinni að hann væri á leið á körfuboltaleik í heimabæ sínum að kvöldi 20. janúar þetta ár, en þess í stað fór hann með vini sínum á pizzastað þar sem einnig var hægt að leika sér í tölvuleikjum. Shawn kvaddi vin sinn um klukkan 21 þetta kvöld og hugðist ganga heim. Hann skilaði sér hins vegar aldrei. Leit að honum bar engan árangur og hefur hans nú verið saknað í 36 ár.

Wilda Benoit

Wilda fæddist þann 13. Janúar árið 1978 en hvarf í júlí 1992. Hún sást síðast á heimili sín en skömmu áður en hún hvarf hafði hún farið á sjúkrahús vegna axlarmeiðsla þar sem hún fékk sterk verkjalyf. Lögregla taldi að Wilda hefði strokið að heiman. Ekkert hefur spurst til hennar og virðist enginn vita hvað varð um hana.

Duane Fochtman

Duane Edward Fochtman fæddist í Oregon í apríl 1971 en hvarf þegar hann var fimmtán ára árið 1986. Afar fáar upplýsingar er að finna um mál hans en lögregla taldi fullvíst á sínum tíma að hann hefði farið sjálfviljugur að heiman. Það sem rennir stoðum undir að eitthvað annað og verra hafi gerst er sú staðreynd að hann skildi eftir peninga og aðra lausamuni heima hjá sér og leysti aldrei út ávísun sem hann átti.

Eric Owens og Martha Wes Dunn 

Martha og Eric voru kærustupar en síðast spurðist til þeirra í Texas þann 5. september 1990. Martha var 15 ára þegar hún hvarf en það gerðist eftir að hún hafði rifist heiftarlega við foreldra sína. Kærasti Mörthu var 17 ára og létu þau sig bæði hverfa daginn eftir umrætt rifrildi. Þann 30. september fékk faðir Mörthu símtal frá kunningja þeirra sem sagðist hafa hitt þau í Oklahoma. Þau hafi virst vera svöng og skítug. Lögregla kannaði þessa ábendingu en parið fannst ekki. Bæði Martha og Eric voru á kafi í neyslu eiturlyfja þegar þau hurfu.

Christopher Kerze

Christopher var 17 ára þegar hann hvarf frá heimili sínu í Eagan í Minnesota þann 20. apríl 1990. Christopher fór frá heimili sínu á bifreið foreldra sinna sem fannst tveimur dögum síðar. Hann hafði einnig tekið með sér skotvopn sem faðir hans átti. Christopher kom aldrei aftur heim og telur lögregla fullvíst að hann hafi svipt sig lífi. Lík hans hefur aldrei fundist.

Umfjöllun sem birtist í DV í október 1993.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 3 dögum

Yfirbuguðu fjallaljón með reiðhjóli

Yfirbuguðu fjallaljón með reiðhjóli
Pressan
Fyrir 3 dögum

Eiginkona hans hefur verið týnd vikum saman – „Hann veit ekki af hverju“

Eiginkona hans hefur verið týnd vikum saman – „Hann veit ekki af hverju“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Daniela Klette handtekin í Berlín – Var eftirlýst í yfir 20 ár

Daniela Klette handtekin í Berlín – Var eftirlýst í yfir 20 ár
Pressan
Fyrir 3 dögum

Telja sig hafa fundið lík sjónvarpsmannsins og kærasta hans

Telja sig hafa fundið lík sjónvarpsmannsins og kærasta hans
Pressan
Fyrir 4 dögum

„Vandræðalega erfitt að fá Google Gemini til að viðurkenna að það sé til hvítt fólk“

„Vandræðalega erfitt að fá Google Gemini til að viðurkenna að það sé til hvítt fólk“
Pressan
Fyrir 4 dögum

Ekkja raðmorðingja fékk dóma fyrir að vera beita eiginmannsins – „Ég var hundurinn“

Ekkja raðmorðingja fékk dóma fyrir að vera beita eiginmannsins – „Ég var hundurinn“