fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024
Pressan

Dagmar var hræðilegt illmenni – Myrti tugi smábarna og sá ekki eftir neinu

Pressan
Laugardaginn 24. febrúar 2024 22:00

Dagmar Overbye.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ung og óhamingjusöm móðir stóð fyrir utan íbúðina. Hún hét Karoline Aagesen og var 24 ára. Hún hafði bankað margoft en ekki verið svarað. Hún hafði beðið í stigaganginum, ráfað um garðinn og beðið. Hún þurfti að ná sambandi við Dagmar Overbye, konuna sem hafði tekið litlu stúlkuna hennar í fóstur þremur dögum áður. En Karoline sá eftir að hafa gefið stúlkuna frá sér og vildi nú fá hana aftur. Karoline grunaði ekki að hún hafði gefið afkastamesta raðmorðingja Danmerkur litlu dóttur sína, konu sem myrti tugi smábarna.

En Dagmar svaraði ekki. Karoline sneri sér til lögreglunnar og reyndi að fá aðstoð hennar en án árangurs. Þetta var árið 1920. Það var svo um fjögurleytið sem karlmaður opnaði dyrnar að íbúð Dagmar og hleypti henni inn. Í tveggja herbergja íbúðinni sat Dagmar við matarborðið en litla stúlkan var hvergi sjáanleg. Karoline var taugaóstyrk. Systir hennar hafði reynt að heimsækja litlu stúlkuna síðustu daga til að fullvissa sig um að hún hefði það gott en það hafði ekki tekist því í hvert sinn hafði Dagmar komið með einhverja afsökun fyrir að hún gæti ekki séð stúlkuna.

Ofn Dagmar.

Dagmar sat þarna við matarborðið og ekkert barn var sjáanlegt, engin ummerki um barn. Hún sagði Karoline að daginn sem hún tók við stúlkunni hefði hún gefið ókunnugri konu hana en þá konu sagðist hún hafa hitt á Istegade. Karoline trúði þessu ekki og hafði samband við lögregluna. Í ofni Dagmar fundu lögreglumenn leifar af beinum dóttur Karoline. Þar með var málið um afkastamesta raðmorðingja Danmerkur farið af stað þótt engan renndi í grun að hún hefði tugi morða á samviskunni.

Þegar réttað var yfir henni játaði hún að hafa myrt rúmlega 20 börn, sem hún hafði tekið að sér, á árunum 1912 til 1920. Hún var sakfelld fyrir átta morð og að hafa borið eitt barn út en ekki þóttu nægilega sterkar sannanir í hinum málunum.

Málið vakti að vonum mikla athygli í Danmörku enda einsdæmi og er það enn. Enginn afkastameiri raðmorðingi hefur komið fram á sjónarsviðið þar í landi síðan.

Af hverju komst ekki fyrr upp um hana?

En hvernig gátu tugir lítilla barna bara horfið án þess að nokkur tæki eftir því? Þessarar spurningar var einnig spurt 1920 þegar upp komst um málið. Allir helstu fjölmiðlar Danmerkur fjölluðu um það og málið vakti að vonum mikinn óhug meðal almennings og miklar umræður.

Á árunum 1911 til 1921 fjölgaði Dönum úr 2,7 milljónum í 3,3 milljónir. Þetta var mikil fjölgun á skömmum tíma og hafði hún ýmis vandamál í för með sér. Til dæmis var skráningu nýbura ábótavant og fæðingarvottorð voru ekki gefin út fyrr en börn voru skírð. Börn sem fæddust utan hjónabands voru í slæmri stöðu þar sem það var ekki talið sæmandi að eignast barn utan hjónabands. Mæður þeirra áttu ekki rétt á félagslegri aðstoð og því urðu margar ungar, einstæðar mæður að auglýsa eftir fósturmæðrum í smáauglýsingum í dagblöðum.

Það var einmitt í gegnum slíkar auglýsingar sem Dagmar komst í samband við mæðurnar sem létu hana fá börn sín. Dagmar auglýsti einnig sjálf eftir börnum. Hún fékk greiddar 400 krónur með hverju barni en það var mikil upphæð á þessum tíma, svaraði til árslauna konu í hennar sporum.

Auglýsing Karoline Aagesen í Aftonbladet.

Karoline Aagesen hafði sett auglýsingu í Aftenposten þar sem hún auglýsti eftir foreldrum sem vildu taka þriggja vikna dóttur hennar að sér en hún hafði eignast hana utan hjónabands og gat ekki annast hana sjálf. Dagmar svaraði auglýsingunni og þær sömdu um að hún tæki dóttur Karoline að sér. Þegar Karoline afhenti henni litlu stúlkuna grunaði hana ekkert misjafnt, Dagmar virtist glöð yfir að fá stúlkuna og sagðist ætla að kveikja upp til að stúlkunni yrði ekki kalt. Á meðan vaggaði hún henni blíðlega í fangi sér. En um kvöldið myrti hún hana. Hún afklæddi stúlkuna og setti hana á grúfu í barnavagninn, ofan á sæng. Hún tók síðan bandspotta og batt um háls hennar og setti lérefti ofan á stúlkuna. Hún settist síðan í sófann og beið eftir að litla stúlkan andaðist. Þegar hún var dáin setti hún hana í fléttukörfu og lét hana vera þar yfir nóttina. Næsta morgun setti hún líkið í ofninn og brenndi það.

Undir áhrifum eiturlyfja

Dagmar myrti börnin yfirleitt skömmu eftir að hún fékk þau í hendurnar og oft notaði hún fyrrgreinda aðferð en hún drekkti líka sumum þeirra. Við réttarhöldin yfir henni kom fram að hún hafði oft verið undir áhrifum fíkinefna þegar hún myrti börnin, til dæmis kókaíns. Hún staðhæfði að hún hefði ekki myrt börnin vegna peninganna en gat engar skýringar gefið á ódæðisverkunum.

Hún sagðist hafa tekið þau að sér því „hún væri svo mikið fyrir börn“ og vildi vera góð við þau. Hún sagðist þó stundum hafa fundið hjá sér þörf til að drepa sum þeirra. Hún bar við minnisleysi þegar hún framdi morðin því hún hafi verið undir áhrifum vímuefna.

Herbergi Dagmar.

Við réttarhöldin kom fram að Dagmar ólst upp við slæm kjör, var talin lygin og hafði verið beitt kynferðislegu ofbeldi af stjúpföður sínum. Hún var þjófótt og vegna fátæktar fjölskyldunnar og erfiðrar hegðunar var hún rekin að heiman 12 ára. 15 ára hlaut hún fyrsta dóm sinn fyrir þjófnað. Hún starfaði á veitingastað og eignaðist barn með þjóni sem starfaði þar. Þetta barn lést, hugsanlega við dularfullar kringumstæður. Á næstu árum eignaðist hún nokkur börn til viðbótar en það var síðasta barnið sem hún hlaut síðar dóm fyrir að hafa borið út.

Dagmar sagði sjálf að hún hafi aðeins viljað hjálpa börnum sem enginn vildi hafa. Hún virðist hafa talið sjálfri sér trú um að hún gerði samfélaginu greiða með því að taka börnin að sér en síðan hafi hún áttað sig á að hún réði ekki við verkefnið og þá var auðveldara að ryðja börnunum úr vegi.

Þann 3. mars 1921 var Dagmar fundin sek um að hafa myrt 8 börn að yfirlögðu ráði og að hafa borið eitt barn út. Hún var dæmd til dauða. Mánuði síðar var dauðadómnum breytt í ævilangt fangelsi með þeim skilyrðum að hún fengi aldrei reynsulausn. Þetta var venjan á þessum tíma en síðasta aftaka konu í Danmörku fór fram árið 1861. Dagmar lést árið 1929, 42 ára að aldri.

Málið hafði mikil áhrif á danskt samfélag

Mál Dagmar hafði mikil áhrif á danskt samfélag því í kjölfarið varð mikil umræða um þær slæmu aðstæður sem konur, sem eignuðust börn utan hjónabands, voru í. Árið 1923 voru sett lög sem kváðu á um eftirlit hins opinbera með börnum sem voru sett í fóstur og kveðið var á um að öll börn, sem fæddust utan hjónabands, ættu að falla undir sérstakt eftirlit. Árið 1924 voru síðan samþykkt lög sem kváðu á um að öll börn skyldu skráð í þjóðskrá.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Vísindamanni er brugðið vegna niðurstöðu nýrrar rannsóknar

Vísindamanni er brugðið vegna niðurstöðu nýrrar rannsóknar
Pressan
Fyrir 2 dögum

4.300 ára grafhýsi gegndi ákveðnu hlutverki

4.300 ára grafhýsi gegndi ákveðnu hlutverki
Pressan
Fyrir 4 dögum

Fimm í lífshættu eftir sprengingu í Danmörku – Talið að þurrsjampó hafi komið við sögu

Fimm í lífshættu eftir sprengingu í Danmörku – Talið að þurrsjampó hafi komið við sögu
Pressan
Fyrir 4 dögum

Prestur brann til bana þegar kviknaði í kufli hans í messu

Prestur brann til bana þegar kviknaði í kufli hans í messu