Alþjóðlegi sakamáladómstóllin (ICJ) fyrirskipaði Ísrael í dag að stöðva tafarlaust hernaðaraðgerðir sínar í borginni Rafah á Gaza. Þessi skipun þykir nokkuð ótvíræð og beitt, en dómstóllinn sem er á vegum Sameinuðu þjóðanna, gekk þó ekki svo langt að fyrirskipa vopnahlé.
Ólíklegt þykir að Ísrael muni verða við þessum fyrirmælum en afstaða dómstólsins er þó talin setja aukinn þrýsting á Ísrael sem er sífellt að verða einangraðri á alþjóðavettvangi.
Sífellt er að færast meiri þungi í gagnrýnina á hernaðaraðgerðir Ísrael gegn Palestínu, sérstaklega eftir að ísraelski herinn fór að leggja áherslu á borgina Rafah. Þrjú Evrópuríki hafa nú viðurkennt Palestínu sem sjálfstætt ríki og hefur æðsti saksóknari alþjóðaglæpadómstólsins (ICC) kallað eftir því að handtökuskipun verði gefin út á hendur leiðtogum Ísrael sem og leiðtogum Hamas-samtakanna.
Átökin eru blóðug og hafa þúsundir óbreyttra borgara fallið í valinn beggja vegna víglína. Þolinmæði fyrir hernaðaraðgerðunum hefur minnkað meðal almennings í Ísrael sem hefur mótmælt harðlega síðan skæruliðar á vegum Hamas ruddust inn til Ísrael og felldu um 1.200 manns sem flestir voru óbreyttir borgarar. Hamas tóku eins 250 einstaklinga sem gísla. Nú heyrist hávært ákall frá almenningi í Ísrael um að stjórnvöld komi gíslunum heim áður en það verður of seint.
Ísrael á sér þó enn dygga stuðningsmenn. Í Bandaríkjunum hefur öldungardeildaþingmaðurinn Lindsey Graham brugðist ókvæða við fyrirmælum ICJ sem hann segir „mega fara til helvítis“.
„Hvað mig varðar má ICJ fara til helvítis,“ skrifaði þingmaðurinn á X. „Það er löngu kominn tími til að standa í hárinu á þessum svokölluðu alþjóðlegu réttindasamtökum sem tengjast sameinuðu þjóðunum. ICJ úrskurðar að Ísrael eigi að hætta aðgerðum sem eru þeim nauðsynleg til að tortíma fjórum herdeildum Hamas morðingja og hryðjuverkamanna – sem nota Palestínumenn sem mannlega skildi – þetta er bara fáránlegt. Þessi skipun verður og ætti að vera algjörlega hundsuð af Ísrael.“
Rafha mun vera síðasta vígi Hamas, en samtökin sama Ísrael um að ganga svo hart fram að þeir kæri sig kollótta um hvort þeir séu að fella hermenn eða saklausa borgara, jafnvel börn.
ICJ hefur engar valdheimildir til að framfylgja úrskurði sínum og hafði dómstóllinn áður, 2022, skipað Rússlandi að hætta innrás sinni í Úkraínu, en augljóslega hefur Rússland ekki tekið mikið mark á þeirri fyrirskipun.
Lindsey bendir eins á að á sínum tíma hafi ICC skipað Bandaríkjunum að hætta hernaði sínum í Afganistan, nokkuð sem Bandaríkin létu sem vind um eyru þjóta.
Þingmaðurinn segir að ef ekki verði brugðist við ákvörðun ICJ með því að beita efnahagsþvingunum þá hafi Bandaríkin brugðist því að styðja við vini sína í Ísrael og megi eins reikna með því að verða næsta viðfangsefni dómstólsins.