fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Pressan

Sakamál: Harmleikurinn í heilsulindinni – Líf hennar endaði þegar hún opnaði pakka

Fókus
Fimmtudaginn 28. mars 2024 21:30

Ildiko Krajnyak og Stephen Beal. Youtube-skjáskot.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 15. maí árið 2018 varð skelfilegur og afar sérkennilegur atburður í  smábænum Aliso Viejo í Orange County í Kaliforníu. Gífurleg sprenging varð þá í heilsulind og snyrtistofu í bænum. Annar eigandi stofunnar, ungversk kona að nafni Ildiko Krajnyak, 48 gömul, var þá að opna pappakassa þegar innihaldið, heimagerð sprengja, sprakk með ógnarkrafti. Ildiko lést samstundis, sprakk í tætlur og líkamshlutar hennar dreifðust víðsvegar um svæðið.

Tveir viðskiptavinir voru í heilsulindinni þegar sprengingin varð, mæðgur, þær slösuðust mjög illa, lifðu þó af og komust til heilsu, en bera ævilangan skaða af atvikinu.

Það lá ljóst fyrir strax í byrjun rannsóknar lögreglu að hér hafði verið framið morð. Sprengju hafði verið komið fyrir í húsnæðinu í lokuðum pappakassa.

Er lögregla tók að kanna bakgrunn hinnar látnu komu flókin ástarmál hennar í ljós. Hún var gift en hún og eiginmaður hennar höfðu ekki búið saman í langan tíma. Þau voru samt ekki skilin. Saman áttu þau son á unglingsaldri.

Ildiko átti í ástarsamböndum við fjölmarga karlmenn og til að byrja með komu þeir allir til greina, ásamt eiginmanninum, sem mögulegir gerendur í málinu, þar sem morðástæðan væri afbrýðisemi.

Glæpsamlega lélegur leikari

Nokkuð snemma beindist þó allur grunur að sameiganda Ildiko að snyrtistofunni, sem var maður að nafni Stephen Beal. Stephen var um þetta leyti að nálgast sextugt, hann var ekkill og átti tvö uppkomin börn. Aðalstarf hans var fjármálaráðgjöf en hann var líka leikari og uppistandari. Hæfileikar hans á þessu sviði voru dregnir mjög í efa, en Stephen, sem leikið hafði í mörgum hræódýrum sakamálamyndum, þótti vera svo lélegur leikari að hent var gaman að því.

Stephen og Ildiko höfðu átt í ástarsambandi eftir að hafa kynnst í gegnum stefnumótavef og höfðu þau stofnað heilsulindina saman. Síðan sleit Ildiko sambandinu við Stephen en þau ráku fyrirtækið áfram saman.

Stephen ræddi fúslega við lögregluna og sagðist enga ástæðu hafa til að fremja ódæðið. Heilsulindin gengi vel og hann bæri engan kala til Ildiko eftir sambandsslitin. Hins vegar kom á daginn að rekstur fyrirtækisins gekk í raun mjög illa og fólk sem þekkti til eigendanna staðhæfði að Stephen væri með þráhyggju í garð Ildiko og þreyttist ekki á því að senda henni ástarbréf og yrkja til hennar ljóð.

Stephen virtist afslappaður í yfirheyrslu hjá lögreglu en hegðun hans var sérkennileg að því leyti að hann fór að segja lögreglumönnunum í löngu máli frá ráðagerðum sínum um uppistand og hugmynd að bíómynd. Léttlyndi hans þótti ekki vera í neinu samræmi við hið hörmulega atvik sem var til umfjöllunar.

Flugeldasmiður með þráhyggju

Meðal þeirra upplýsinga sem lögregla aflaði sér um Stephen var að hann gerði öfluga flugelda í frístundum sínum og skaut þeim á loft úti í eyðimörk í nágrenni við bæinn. Við húsleit á heimili hans fundust íhlutir í sprengju sem svipaði til samsetningar sprengjunnar sem hafði sprungið í heilsulindinni. Nánari rannsókn leiddi í ljós að Stephen hafði keypt efni í sprengjuna skömmu fyrir atburðinn, það er að segja níu volta rafhlöðu. Þetta sýndu upptökur úr eftirlitsmyndavélum. Hann sást einnig kaupa þrjá pappakassa. Einn þeirra var nákvæmlega eins og sá sem sprengjan hafði verið í, en í ljós kom að Stephen hafið komið fyrir þremur svona kössum í heilsulindinni og sprengjan var í einum þeirra.

Talið er að með ódæðinu hafi hann annars vegar viljað hefna sín á Ildiko fyrir að hafna sér og hins vegar að losna við fjárhagsvandann sem fylgdi heilsulindinni, semsagt slá tvær flugur í einu höggi.

Stephen hefur ávallt neitað sök í málinu en hann var fyrr á þessu ári dæmdur í ævilangt fangelsi og 30 ára fangelsi að auki.

Hann á einnig yfir höfði sér dóm fyrir fjársvik sem felast í því að hann gaf ekki upp til skatts háa líftryggingargreiðslu, hálfa milljón dollara, sem hann leysti út eftir lát eiginkonu sinnar.

Annað morð?

Eiginkona Stephen, Christine Beal, lést í mars árið 2008, eftir slys sem hún varð fyrir á heimili hjónanna, er hún var að bera þung húsgögn með honum upp stiga. Hún var í kjölfarið lögð inn á sjúkrahús og lést skömmu síðar. Dánardómstjóri skráði dánarorsök „líklega af eðlilegum orsökum“ sem er sérkennilegt. Í líkama Christine fundust efni sem vöktu grunsemdir en þó ekki nægilegar til að þær leiddu til sakamálarannsóknar. Eftir ódæðið í heilsulindinni hafa grunsemdir um að Stephen hafi ráðið eiginkonu sinni bana farið vaxandi en þó ekki leitt til formlegrar rannsóknar. Börn þeirra hafa sagt við fjölmiðla að þau telji fráleitt að faðir þeirra hafi banað móður þeirra. Það hafi aldrei hvarflað að þeim annað en að lát móður þeirra hafi verið hræðilegt slys enda hafi hjónaband foreldra þeirra verið gott.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Dýrahirðirinn gerði afdrifarík mistök

Dýrahirðirinn gerði afdrifarík mistök
Pressan
Í gær

Myndband sýnir björgun fanga úr fangelsi í Sýrlandi – Hafði verið fjóra mánuði í gluggalausum klefa

Myndband sýnir björgun fanga úr fangelsi í Sýrlandi – Hafði verið fjóra mánuði í gluggalausum klefa
Pressan
Fyrir 2 dögum

25 mafíósar handteknir – Þar á meðal nunna

25 mafíósar handteknir – Þar á meðal nunna
Pressan
Fyrir 2 dögum

Vísindamenn hafa uppgötvað raunverulegu ástæðuna fyrir að konur gera sér upp fullnægingu

Vísindamenn hafa uppgötvað raunverulegu ástæðuna fyrir að konur gera sér upp fullnægingu
Pressan
Fyrir 3 dögum

„Undraland vetrarins“ sagt vera hrein blekking

„Undraland vetrarins“ sagt vera hrein blekking
Pressan
Fyrir 3 dögum

Líf hjónanna breyttist mjög þegar dóttir þeirra gekk í hjónaband með Assad

Líf hjónanna breyttist mjög þegar dóttir þeirra gekk í hjónaband með Assad
Pressan
Fyrir 4 dögum

Lét mömmu sína hringja í þingmenn svo hann geti orðið varnarmálaráðherra – „Hann hljóp heim og klagaði í mömmu“

Lét mömmu sína hringja í þingmenn svo hann geti orðið varnarmálaráðherra – „Hann hljóp heim og klagaði í mömmu“
Pressan
Fyrir 4 dögum

Katie Holmes svarar orðrómunum – „Algjör vitleysa“

Katie Holmes svarar orðrómunum – „Algjör vitleysa“