„Nýjasta greining okkar sýnir að Evrópa stendur frammi fyrir bráðri loftslagshættu sem vex hraðar en viðbragðsgeta okkar,“ er haft eftir Leena Yla-Mononen, forstjóra EEA, í fréttatilkynningu.
Á síðustu árum hafa Evrópubúar ekki farið varhluta af hitabylgjum og flóðum og miðað við það sem kemur fram í skýrslunni mun slíkum hamförum fjölga í framtíðinni. Af þeim sökum verða Evrópuríki að undirbúa sig undir slíkar hamfarir.
Evrópa er sú heimsálfa þar sem hitinn hækkar hraðast, raunar tvöfalt hraðar en annars staðar í heiminum að sögn EEA. Af þeim sökum skella loftslagsbreytingarnar mjög hratt á Evrópu.
Í greiningunni er farið yfir 36 stóra loftslagsáhættuþætti í Evrópu og 21 af þeim krefst tafarlausra viðbragða. Ef ekki verður brugðist við, eru heilsufar, innviðir og uppskera í Evrópu í hættu og mun það eiga sér stað á þessari öld.
Hlýrra loftslag mun valda miklum þurrkum í suðurhluta álfunnar og eyðileggja uppskeru og minnka vatnsforðann.
Ef vandamálin verða ekki leyst svo fljótt sem auðið er, þá mun það hafa banvænar afleiðingar að mati EEA.
Í skýrslunni eru ýmsar sviðsmyndir dregnar upp og í þeim svartsýnustu kemur fram að „mörg hundruð þúsund manns muni látast í hitabylgjum“.
Sumarið 2022 létust 60.000 til 70.000 Evrópubúar ótímabærum dauða vegna hærra hitastigs.