Færsla breskrar konu á samfélagsmiðlinum LinkedIn hefur vakið gífurlega athygli, en færsluna hafði hún skrifað rétt áður en hún dó og falið ástvinum að birta að henni liðinni. Um er að ræða kveðjubréf sem skilur engan eftir ósnortinn.
Daniella Thackray tilkynnti sjálf andlát sitt í áðurnefndri færslu, en hún var aðeins 25 ára gömul og hafði tapað baráttu við sjaldgæft krabbamein í gallrás.
„Þó við getum ekki stýrt því hvað hendir okkur, þá getum við stýrt því hvernig við bregðumst við. Ég valdi það að syrgja ekki lífið sem ég var að missa, þrátt fyrir að vera miður mín yfir því, þessi í stað ákvað ég að njóta hverrar mínútu sem ég átti eftir.
Eins og ég hef alltaf sagt og ávallt trúað þá ætti fólk að njóta litlu hlutanna í lífinu og meta hvert augnablik! Lofið lífið. Gerið það sem færir ykkur hamingju og ekki leyfa nokkrum að taka lífsgleðina frá ykkur.“
Hún tók fram að hún hafi elskað lífið sitt. Hún hafi náð markmiðum, verið í vinnu sem hún elskaði, átt frábæran unnusta, fjölskyldu, vini og hund. Hún elskaði húsið sem hún og unnusti hennar ætluðu að kaupa og framtíðardraumanna sem þau áttu saman.
„Svo takk öll fyrir að gera lífið mitt að ævintýri. Munið hvað ég sagði um að njóta litlu hlutanna. Og síðast en ekki síst til elsku fallega Tom, ég elska þig og mun alltaf gera. Takk fyrir að styðja mig og færa svona mikla ást og hamingju inn í líf mitt. Farðu nú og njóttu lífsins, þú átt það skilið.“
Daniella vitnaði eins í bók A. A. Milne um Bangsímon:
„Ef það rennur upp morgundagur þar sem við erum ekki saman, þá er nokkuð sem þú þarft alltaf að muna. Þú ert hugrakkari en þú heldur, sterkari en þú virðist og klárari en þú heldur. En það mikilvægasta er, að jafnvel þó við séum í sundur, þá er ég alltaf með þér.“