Ástæðan er að samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar þá eiga þeir sem spila skotleiki á hættu að verða fyrir heyrnartjóni. BBC skýrir frá þessu.
Í rannsókninni kemur fram að þegar fólk spilar tölvuleiki, spili það oft í mjög langan tíma og sé með hljóðið mjög hátt stillt.
Þá má eflaust spyrja sig hvort það sé þá ekki snjallt að lækka aðeins í hljóðinu og það er auðvitað mögulegt og raunar hluti af lausninni.
En ein af niðurstöðum rannsóknarinnar er að þetta snúist ekki bara um hljóðstyrkinn, heldur einnig hversu langur tími það er sem fólk er í návígi við þann hávaða sem fylgir mörgum tölvuleikjum.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO telur að fullorðnir eigi ekki að hlusta á meiri hávaða en 90 desíbel í meira en fjórar klukkustundir á viku og 95 desíbel ekki meira en eina klukkustund á viku.
Rannsóknin leiddi í ljós að meðalhávaðinn í fjórum skotleikjum var 88,5 til 91,2 desíbel í heyrnartólum.
Aðrar rannsóknir, sem voru teknar með í þessari, sýndu samhengi á milli heyrnarskaða og eyrnasuðs.
Vísindamennirnir ráðleggja spilurum því að nota aðeins helming mögulegs hljóðstyrks og að taka sér reglulega hlé til að hvíla eyrun. Einnig ráðleggja þeir spilurum að nota heyrnartól, sem draga úr umhverfishávaða, í stað þess að hækka í heyrnartólunum til að reyna að yfirgnæfa umhverfishávaðann.