Í umfjöllun Mail Online, sem vísar í skrif Bild um málið, kemur fram að ein sviðsmyndin sem Þjóðverjar búa sig undir sé sú að Rússar ætli sér að stigmagna stríðsátökin í Úkraínu á næstu 18 mánuðum og fara út fyrir Úkraínu. Þetta muni óhjákvæmilega leiða til þriðju heimsstyrjaldarinnar ef af verður. Ekki eru margir dagar síðan hátt settir aðilar í Svíþjóð sögðu að borgarar landsins þyrftu að búa sig undir stríð.
Í skjölunum sem vísað er til kemur fram að Rússar ætli sér að herja áfram á Úkraínu með herkvaðningu um 200 þúsund manna herliðs strax í febrúar. Þeir muni nýta sér dvínandi stuðning Vesturlandanna við Úkraínu og hefja umfangsmikla sókn í vor sem mun leiða til þess að þeir ná stórum hluta Úkraínu undir sig í byrjun sumars.
Um mitt sumar muni Rússar fara að huga að aðgerðum í Eistlandi, Lettlandi og Litáen og beita þar gömlum meðulum í bland við ný. Þeir muni beita netárásum og á sama tíma grafa undan yfirvöldum í þessum löndum með því að halda því fram að rússneskir minnihlutahópar í löndunum sæti einhvers konar ofsóknum.
Pútín muni nota þetta sem réttlætingu fyrir innrás og í september verði 50 þúsund hermenn sendir til Belarús og vesturhluta Rússlands. Hann muni svo ganga skrefinu lengra snemma næsta vetur þar sem hann mun flytja hermenn til Kalíníngrad, milli Litáens og Póllands, við Eystrasaltið og á sama tíma senda vopn á svæðið, eldflaugar þar á meðal.
Eitt af markmiðum Pútíns, samkvæmt umræddum skjölum, er mögulega árás á landsvæði sem kallast Suwalki-hliðið og er stundum kallað veikasti hlekkur Atlantshafsbandalagsins. Svæðið er á landamærum Póllands og Litáen og liggur nokkurn veginn á milli Belarús og Kalíníngrad. Árás á þetta svæði gæti valdið miklum vandræðum fyrir Atlantshafsbandalagið sem hugsanlega yrðu að svara fyrir sig með tilheyrandi afleiðingum.
Samkvæmt umræddum skjölum myndu Rússar reyna að dreifa allskonar áróðri um árásir á Rússa og rússneska hermenn við Suwalki-hliðið. Í desember muni Pútín svo hefja frekari undirbúning árása á aðildarríki NATO og nýta sér bandarísku forsetakosningarnar til þess ef nýr forseti tekur við völdum í Hvíta húsinu.
Á næsta ári muni undiraldan halda áfram og mikil spenna vera á milli Rússlands og aðildarríkja NATO.Áður en yfir líkur muni NATO svara Rússum með herkvaðningu 300 þúsund manna herliðs sem mun koma sér fyrir í austurhluta álfunnar til að bregðast við yfirvofandi innrás Rússa.
Hvort þessi sviðsmynd verður að veruleika skal ósagt látið en af skjölunum að dæma er ljóst að aðildarríki NATO, Þjóðverjar í þessu tilfelli, eru við öllu búin og eru farin að teikna upp ýmsa möguleika.
Í frétt Bild, sem Mail Online vitnar til, er haft eftir talsmanni þýska varnarmálaráðuneytisins að ráðuneytið tjái sig ekki um þær vangaveltur sem birtast í umfjölluninni. Það sé þó alvanalegt að í varnarmálum að teikna upp mismunandi sviðsmyndir, hversu ólíklegar sem þær kunna að vera.