Á tæpum 300 árum herjuðu víkingar á að minnsta kosti fjórar heimsálfur og fóru þar um rænandi og ruplandi og könnuðu lönd. Þeir héldu í víking í allar áttir frá Norðurlöndunum og réðust á samfélög í Evrópu og víðar. En hversu langt komust þeir og af hverju voru þeir svona ævintýragjarnir?
Þessu var velt upp nýlega á vef Live Science og bent á að helsta hvatning víkinga hafi verið völd og auður. Haft er eftir Alexandra Sanmark, prófessor í miðaldarfornleifafræði, að víkingarnir hafi vitað hvar auð væri að finna og að þeir hafi stundað viðskipti við fólkið, sem átti auðinn, um langa hríð. Síðan virðist hafa runnið upp fyrir þeim að þeir þyrftu ekki lengur að stunda viðskipti við það, þeir gætu bara tekið það sem þeir vildu.
Ungir menn byrjuðu að sigla til annarra landa frá Norðurlöndunum á víkingaöldinni, sem stóð frá 793 til 1066, og fóru um rænandi og ruplandi um önnur lönd. Á endanum fóru þeir að setjast að á nýjum slóðum og komu sér upp viðvarandi búsetu og miðstöðvum tengdum mikilvægum viðskiptaleiðum.
Þegar víkingarnir héldu í vestur var það norðanvert Skotland sem var fyrsti áfangastaður þeirra og þaðan héldu þeir áfram til Færeyja og að lokum alla leið til Íslands um 870.
Um árið 1000 sigldu þeir til Grænlands og síðan til Nýfundnalands.
Þeir sigldu síðan yfir Eystrasaltið til austurs og upp eftir ám í Austur-Evrópu og Rússlandi, í gegnum þar sem Kyiv stendur nú og Novogrod í Rússlandi og alla leið niður til borgarinnar sem nú heitir Istanbúl og er í Tyrklandi. Þaðan lá leiðin síðan til Baghdad í Írak.
Talið er líklegt að víkingar hafi farið enn austar en fornleifafræðingar hafa ekki getað staðfest það með fullri vissu. Þeir fluttu ýmsa muni frá enn austlægri löndum með sér heim til Norðurlandanna. Til dæmis hefur kínverskt silki frá víkingatímanum fundist í Svíþjóð. Ekki er vitað hversu langt víkingarnir fóru til að ná í það en þeir virðast hafa verið með sambönd við Kína og Indland.
Víkingar fóru til Frakklands, Íberíuskaga og meðfram norðurströnd Afríku snemma á elleftu öld. Þeir reyndu þó aldrei að fara yfir Sahara og halda áfram inn í Afríku.