Hálfri annarri viku eftir að ungu konurnar hurfu fundu lögreglumenn úr sérsveit lögreglunnar lík þeirra nærri borginni Celaya. Hún er í Mexíkó og má með sanni segja að þetta sé hættulegasta borg heims. Þar búa um 310.000 manns.
Lögreglan segir að glæpasamtök hafi staðið á bak við hvarf kvennanna og morðanna á þeim. Annars hefur lögreglan ekki viljað tjá sig mikið um málið.
Óupplýst morð og blóðug uppgjör glæpagengja eru daglegur atburður í borginni sem nýtur þess vafasama heiðurs að tróna á toppi Statistas yfir hættulegustu borgir heims á síðasta ári. Er þá átt við borgir í löndum þar sem stríð geisar ekki.
Celaya er í Guanajuato-héraðinu sem er norðvestan við Mexíkóborg. Þar voru framin 109 morð á hverja 100.000 íbúa á síðasta ári. Þetta er heimsmet sem enginn heiðvirður borgarstjóri vill slá. Ef sama hlutfall morða ætti við hér á landi myndi það þýða að um 400 manns væru myrtir árlega.
Skotbardagar og sprengjuárásir eiga sér reglulega stað í borginni. Til dæmis voru fimm námsmenn myrtir skömmu fyrir jól. Lík þeirra fundust í brunnum bíl í útjaðri hennar. Annað mál var þegar átta konur og þrír karlar voru drepin í skotárás í borginni. 15 grímuklæddir menn úr þekktum eiturlyfjahring voru þar að verki. Þeir notuðu skotvopn og bensínsprengjur. Þeir skildu eftir pappaskilti á vettvangi þar sem þeir sögðu að um hefndaraðgerð á vegum glæpagengis væri að ræða.