fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Pressan

Ung kona varð afbrýðisöm og reifst við unnusta sinn – Það eyðilagði líf hennar

Pressan
Þriðjudaginn 2. janúar 2024 22:30

Alice Wood. Skjáskot Youtube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Breskir fjölmiðlar greina í dag frá máli ungrar konu, Alice Wood, sem missti gjörsamlega stjórn á skapi sínu vegna afbrýðisemi og rifrildis við unnusta sinn. Hún varð honum að bana  í kjölfarið með því að aka á hann. Wood var fyrr í dag sakfelld fyrir morð og búist er við að hún hljóti lífstíðardóm en hún er 23 ára gömul.

Í umfjöllun Mirror kemur fram að unnustinn hét Ryan Watson og var hann einu ári eldri. Parið bjó saman í þorpinu Rode Heath í Cheshire, sem er norðaustan við Wales.

Að kvöldi 6. maí á nýliðnu ári voru þau að koma heim eftir veislu en Wood ók bílnum. Í nágrenni heimilis þeirra fór Watson út úr bílnum og skipti þá engum togum að Wood ók á hann og dróst hann með bílnum um 160 metra langa leið.

Eins og áður segir lifði Watson ekki af og þegar Wood var handtekin bað hún lögreglumenn að skjóta sig í hausinn. Wood átti bjarta framtíð fyrir höndum en hún hafði hlotið styrk til að stunda framhaldsnám við Cambridge háskóla, einn af bestu háskólum heim en nú er það nám fyrir bí.

Fjölskylda Watson segist ánægð með sakfellinguna en að þau séu algjörlega miður sín að manneskjan sem átti að vera nánust honum skyldi verða honum að bana með svo grimmilegum hætti.

Watson og Wood voru á leið heim úr sextugsafmæli skjólstæðings samtaka sem aðstoða fólk sem hlotið hefur heilaskaða en Watson starfaði hjá samtökunum.

Réttarmeinafræðingur segir að Watson hafi orðið fyrir alvarlegum súrefnisskorti þegar hann dróst með bílnum og það hafi orðið honum að bana.

Parið hafði neytt áfengis og munu hafa rifist í bílnum. Watson sté út úr bílnum og er sagður hafa sparkað í hann og upphófst í kjölfarið atburðarásin sem endaði með dauða Watson.

Ásetningur Wood virðist hafa verið nokkuð einbeittur. Fyrst bakkaði hún bílnum og keyrði hann áfram á víxl í námunda við Watson eins og hún væri að hræða hann. Loks keyrði hún á hann en Watson náði að standa upp. Unnusta hans keyrði þá aftur á hann og í þetta sinn fór bíllinn yfir Watson, hann festist undir honum og eins og áður segir keyrði Wood bílinn rúmlega 160 metra með unnusta sinn undir honum.

Atburðarásin náðist á upptökur eftirlitsmyndavéla.

Þegar Wood gerði sér loksins almennilega grein fyrir hvað hún hafði gert bankaði hún upp á í nærliggjandi húsi og óskaði eftir að hringt yrði á sjúkrabíl.

Varð reið eftir að unnustinn náði góðu sambandi við aðra konu

Kona að nafni Tiffany Ferriday bar vitni fyrir dómi. Hún var viðstödd sextugsafmælið ásamt móður sinni sem er skjólstæðingur samtakanna. Ferriday sagði að hún og Watson hefðu hist áður og hann hefði verið mjög glaðlyndur maður. Hún sagði að vel hafi legið á Watson í afmælinu og hann verið hrókur alls fagnaðar en að lítið hafi farið fyrir Wood. Ferriday segir að hún og Watson hafi talað mikið saman í veislunni og náð góðum tengslum, eða „smollið saman“ (e. clicked) eins og hún orðaði það, en að Wood hafi ekki tekið mikinn þátt í samtalinu.

Ferriday segir að Wood hafi starað á sig í veislunni, langtímum saman. Hún segist hafa yfirgefið veisluna á undan parinu og reynt hafi verið skömmu síðar að hringja í hana í gegnum Instagram. Ferriday segist ekki hafa þekkt viðkomandi Instagram-reikning en fékk það seinna staðfest að um hefði verið að ræða reikning Ryan Watson.

Nágranni Wood og Watson bar einnig vitni og sagðist hafa meðal annars hafa heyrt Watson hrópa:

„Guð minn góður, ekki þetta aftur.“

Lögreglumaður sem kallaður var á vettvang var vísað inn í hús þar sem Wood sat grátandi í sófa. Hann sagði Wood hafa virst vera ölvaða. Hann handtók hana vegna gruns um morð og eftir að hún blés í áfengismæli var ölvun við akstur bætt við ástæður handtökunnar.

Wood játaði strax verknaðinn og á leiðina á lögreglustöðina var útskýrt fyrir henni hvað tæki við. Svaraði hún þá:

„Fínt, ég á það skilið.“

Fyrir dómi sagði Wood að henni hefði liðið eins og hún væri stödd í óraunverulegri martröð. Hún fullyrti að þegar þau rifust væri framkoma Watson, sem var annálað góðmenni, allt öðruvísi. Hún hafi aðeins ætlað að hræða hann með því að látast ætla að keyra á hann en ekki ætlað sér að gera það. Wood virðist ekki hafa minnst á eigin afbrýðisemi en fullyrti að Watson hafi sakað hana um að daðra við aðra karlmenn í veislunni. Hann hafi kallað hana druslu og sagt að hún hafi látið hann líta illa út. Sagði Wood að hún hefði þá sagt Watson að fara inn á heimili þeirra og í rúmið en hún hafi sagst ætla að gista hjá móður sinni. Fullyrðir hún að þá hafi Watson sagt að móðir hennar væri „dauð.“

Það fylgir ekki sögunni hvort að Wood hafi túlkað þetta sem hótun í garð móður hennar og þess vegna misst svona stjórn á sér.

Saksóknari málsins sagði hins vegar að hún hefði misst stjórn á sér vegna afbrýðisemi og ölvunar með þessum afleiðingum.

Refsing yfir Alice Wood verður ákveðin síðar.

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Maðurinn sem sagði „þinn líkami, mitt val“ handtekinn – Spreyjaði piparúða á 57 ára gamla konu sem vildi bara ræða við hann

Maðurinn sem sagði „þinn líkami, mitt val“ handtekinn – Spreyjaði piparúða á 57 ára gamla konu sem vildi bara ræða við hann
Pressan
Fyrir 2 dögum

Morðið á moldríka forstjóranum – Lögregla birtir nýjar myndir, fjölmiðlar misskildu borgarstjóra og Monopoly-seðlar vekja upp spurningar

Morðið á moldríka forstjóranum – Lögregla birtir nýjar myndir, fjölmiðlar misskildu borgarstjóra og Monopoly-seðlar vekja upp spurningar
Pressan
Fyrir 3 dögum

5 leiðir til að minnast ástvina þinna um jólin

5 leiðir til að minnast ástvina þinna um jólin
Pressan
Fyrir 3 dögum

Svona getur þú gert örbylgjuofninn skínandi hreinan á nokkrum mínútum

Svona getur þú gert örbylgjuofninn skínandi hreinan á nokkrum mínútum
Pressan
Fyrir 4 dögum

Hann naut trausts æðstu ráðamanna en undir fáguðu yfirborðinu leyndist skrímsli

Hann naut trausts æðstu ráðamanna en undir fáguðu yfirborðinu leyndist skrímsli
Pressan
Fyrir 4 dögum

Þess vegna á nætursvefninn ekki að vera undir sjö klukkustundum

Þess vegna á nætursvefninn ekki að vera undir sjö klukkustundum