fbpx
Föstudagur 23.febrúar 2024
Pressan

Lá fyrir dauðanum þegar hann sagði dóttur sinni ótrúlegt leyndarmál

Pressan
Þriðjudaginn 5. desember 2023 22:00

Ashley með föður sínum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kvöld eitt í mars 2021 sat Ashley Randele og ræddi, einu sinni sem oftar, við föður sinn á heimili hans í úthverfi Boston í Bandaríkjunum. Faðir hennar, Thomas Randele, var þegar þarna var komið sögu rétt rúmlega sjötugur og nýbúinn í lyfjameðferð við lungnakrabbameini sem hann þjáðist af.

Þar sem þau sátu þarna tvö, hann í rúminu og hún á rúmstokknum, virtist hann vilja létta á sér með eitthvað sem nagaði samvisku hans. Ashley átti væntanlega ekki von á þeirri sprengju sem hann lét að lokum falla: Hann var í raun eftirlýstur glæpamaður og hafði verið það í 50 ár. Þá var hans rétta nafn ekki Thomas Randele heldur Theodore Conrad.

Faðir Ashley útskýrði fyrir henni að fyrir rúmlega 50 árum, þegar hann var um tvítugt, hefði hann rænt banka í Ohio og komist undan með töluverða fjármuni, eða 215 þúsund Bandaríkjadali. Það er upphæð sem samsvarar rúmlega einni og hálfri milljón dala á núverandi gengi, eða um 200 milljónum króna.

Fleiri hundruð greinar

Thomas hvatti dóttur sína til að skoða málið ekkert frekar. Ashley var eðli málsins samkvæmt brugðið og átti erfitt með að sofna þetta kvöld. Úr varð að hún fór á vef Google og leitaði að upplýsingum um bankaránið í Ohio og nafnið „Ted Conrad“.

„Það fyrsta sem ég hugsaði var: Vá, þetta er í raun og veru pabbi minn. Það voru fleiri hundruð greinar skrifaðar um þetta mál,“ segir hún í viðtali við CNN sem fjallar ítarlega um málið.

Ted Conrad ungur að árum.

Thomas Randele bjó ásamt fjölskyldu sinni í Lynnfield í Massachusetts þar sem hann starfaði sem bílasali og stundaði golf í frístundum. Hann var mikill fjölskyldumaður og varð tíma sínum að mestu með eiginkonu sinni og eina barni, Ashley. Þetta var lífið eftir bankaránið og er óhætt að segja að hann hafi snúið blaðinu við eftir hið bíræfna rán í Ohio í júlí árið 1969.

Eftir ránið voru myndir af barnslegu andliti hans víða og feðgar sem störfuðu hjá U.S Marshals gerðu það nánast að ævistarfi sínu að leysa þessa ráðgátu og koma lögum yfir hinn unga bankaræningja.

Mamma fékk áfall

Ashley kom aftur til föður síns og sagðist hafa leitað upplýsinga um málið á netinu. Það væru fleiri hundruð greinar um hann á netinu. „Ég sagði við hann að þeir væru enn að leita, ef hann gerði sér ekki grein fyrir því. Ég sagði honum að við þyrftum að segja mömmu frá þessu.“

Ashley tók móður sína til hliðar daginn eftir og lýsti því sem faðir hennar hefði sagt henni. „Hún settist niður og skoðaði þessar greinar og var bara: „Guð minn góður, guð minn góður“ í svona 10 mínútur. Hún hafði þekkt hann í rúm 40 ár og það hefur verið mikið áfall fyrir hana að komast að þessu.“

Í umfjöllun CNN er rifjað upp hvernig ránið bar að og bent á að það hafi að nokkru leyti minnt á þekkta kvikmynd, The Thomas Crown Affair sem var vinsæl á þessum tíma og í miklu uppáhaldi hjá ræningjanum unga.

Conrad, eins og við köllum hann fyrir ránið, starfaði á sínum tíma sem gjaldkeri í Society National-bankanum í Cleveland og þennan örlagaríka föstudag þann 11. júlí árið 1969 mætti hann til starfa eins og venjulega. Hann átti afmæli þessa helgi og í tilefni af því keypti hann sér viskíflösku og sígarettupakka  í hádegishléinu. Áður en hann stimplaði sig úr vinnunni gekk hann niður í peningageymslu bankans, fyllti poka af peningum og lét sig hverfa. Ránið uppgötvaðist ekki fyrr en á mánudeginum.

Slóðin varð ísköld

Hann sendi svo tvö bréf nokkrum dögum seinna til þáverandi kærustu sinnar, annars vegar frá Washington, D.C, og hins vegar frá Los Angeles, þar sem hann sagðist sakna hennar og elska hana. Eftir það heyrðist ekkert frá honum og varð slóðin ísköld þó að lögregla legði mikla áherslu á að handsama hann.

Conrad ákvað að setjast að í Boson og er hann sagður hafa verið heltekinn af myndinni The Thomas Crown Affair. Vinir hans í Ohio sögðu að hann hefði horft á myndina nokkrum sinnum fyrir ránið og stært sig af því að hafa fengið starf í bankanum án þess að þurfa að gefa fingraförin sín. Þá sagði hann að afar auðvelt væri að stela peningum úr bankanum. Ashley segist viss um að hann hafi einmitt valið nafnið Thomas vegna ástar hans á aðalsöguhetju myndarinnar sem vísað er í hér að framan.

Vildi aldrei fara til útlanda

Ashley segir aðspurð að faðir hennar hafi ekki haga lífi sínu eins og hann væri flóttamaður. Hann ók henni í skólann á hverjum degi og sótti hana og þá fór hann stundum með henni í skólaferðalög. Hún segir að hann hafi þó alltaf verið með alskegg – annað en á sínum yngri árum – og var oftar en ekki með derhúfu. Þá fór hann aldrei út fyrir landsteinana en útskýrði það með þeim orðum að það væri svo mikið að sjá í Bandaríkjunum. Hann þyrfti ekki að fara til útlanda. Ashley áttar sig núna á því að hann átti ekki vegabréf og gat því ekki farið út.

Ashley segir að þessi opinberun hafi haft mikil áhrif á fjölskylduna en þær mæðgur sammælst um að segja yfirvöldum ekki frá þessu. Þar sem hann átti aðeins nokkra mánuði ólifaða vildu þær ekki sjá hann eyða síðustu dögunum í fangelsi.

Það var svo í maí 2021, um tveimur mánuðum eftir opinberunina, að faðir hennar lést vegna krabbameinsins sem hann glímdi við. Ashley hefur nú sett af stað hlaðvarp, Smoke Screen: My Fugitive Dad, þar sem hún fer yfir sögu föður síns og fjölskyldu sinnar. Í þáttunum ræðir hún við gamla vini föður síns og reynir að púsla lífi hans saman eins vel og möguleiki er á. Hún fékk svör við einhverjum af spurningum sínum en ekki öðrum, eins og gengur.

Lögregla knúði dyra

Eftir andlát Thomas Conrad knúðu lögreglumenn dyra á heimili hennar og móður hennar. Þær höfðu sammælst um að syrgja í eitt ár áður en þær létu yfirvöld vita, en lögregla var fyrri til. Í nóvember 2021 komu lögreglumenn og vissu þær mæðgur um leið af hverju lögregla væri mætt á svæðið.

Síðar kom á daginn að einhver hafði séð minningargrein um Thomas Randele og látið lögreglu vita að þarna væri líklega kominn fram Thodore Conrad. Viðkomandi hjó eftir því að fæðingardagur Randele væri 10. júlí 1947 en Conrad var fæddur 10. júlí 1949. Í minningargreininni var einnig minnst á foreldra Conrads en búið að bæta við eftirnafninu Randele hjá þeim. Lögregla byrjaði að grafast fyrir um málið og innan fárra mánaða var búið að staðfesta að þarna var kominn fram bankaræninginn sem hafði framið hið fullkomna rán.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Hann sagði að eiginkonan hefði farið að heiman með öðrum manni – Núna er ný staða komin upp í málinu

Hann sagði að eiginkonan hefði farið að heiman með öðrum manni – Núna er ný staða komin upp í málinu
Pressan
Í gær

Skyndilega hóstaði hún – „Ég hef aldrei séð neitt þessu líkt“

Skyndilega hóstaði hún – „Ég hef aldrei séð neitt þessu líkt“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Rebecca hvarf fyrir fimm árum – Þessi ljósmynd hefur vakið grunsemdir lögreglunnar

Rebecca hvarf fyrir fimm árum – Þessi ljósmynd hefur vakið grunsemdir lögreglunnar
Pressan
Fyrir 3 dögum

Svaf við hlið rotnandi líks bróður síns árum saman í „Hryllingshúsinu“

Svaf við hlið rotnandi líks bróður síns árum saman í „Hryllingshúsinu“
Pressan
Fyrir 4 dögum

Einn handtekinn vegna morðs á Grænlandi

Einn handtekinn vegna morðs á Grænlandi
Pressan
Fyrir 5 dögum

Fundu 10.000 hluta úr fólki á landareign hans – Lögreglan er enn að bera kennsl á fórnarlömbin

Fundu 10.000 hluta úr fólki á landareign hans – Lögreglan er enn að bera kennsl á fórnarlömbin