Fyrir sjö árum var bifvélavirkjanum Adrian Ling sagt upp störfum hjá breska ferðafyrirtækinu Goldline Travel vegna gruns um að hann væri að stela díselolíu. Ling, sem er í dag 63 ára gamall, tók tíðindunum vægast sagt illa og hóf fordæmalausa hefndarför gegn sínum gamla vinnuveitanda.
Yfir sjö ára tímabil er Ling sagður hafa framið áttatíu skemmdarverk á eignum fyrirtækisins, rútum þess og leigubílum. Alls nemur tjónið af skemmdarverkum bifvélavirkjans rúmlega 50 milljónum króna yfir þetta tímabil.
Versta tilvikið var þegar að Ling framdi kvöld eitt skemmdarverk á þremur langferðarbílum fyrirtækisins, braut rúður og skar í dekk og áklæði. Nam tjónið rúmum sjö milljónum króna.
Þá skaut hann með loftrifli í rúður leigubíla fyrirtækisins, jafnvel þegar farþegar voru í bílunum, og þegar hann hitti eigandann, Ian Trussler, fyrir tilviljun í stórmarkaði eitt sinn, þá tryllist Ling, öskraði á sinn fyrrum yfirmann að hann myndi skemma eigur hans til dauðadags og flugskallaði svo Trussler í gólfið.
Ling var á dögunum sakfelldur fyrir brot sín þar á meðal áðurnefnda líkamsárás. Rannsókn málsins tók langan tíma því Ling fékk 34 ára samverkamann að nafni Daniel Garrison til að hjálpa sér við sum skemmdarverkin og því varð rannsóknin flóknari en ella. Að endingu tókst lögreglu að tengja þá saman og sakfella. Eiga þeir yfir höfði sér þunga dóma sem verða kveðnir upp í janúar.