Fleiri hundruð manns ruddust inn í flugstöðina og út á flugbrautina þar sem gerður var aðsúgur að farþegum vélarinnar.
Makhachkala er í Dagestan, stærsta fylki Rússlands í Kákasus, en þar eru múslimar í meirihluta. Stríð Ísraelsmanna við Hamas-samtökin í Palestínu hefur ekki farið fram hjá neinum og vildi múgurinn senda skýr skilaboð um afstöðu sína til stríðsins.
Í frétt BBC kemur fram að yfirvöld í Ísrael hafi farið þess á leit við yfirvöld í Rússlandi um að passað verði upp á ísraelska ríkisborgara í landinu. Vélin var að koma frá Tel Aviv og voru margir Ísraelsmenn um borð. Krafðist hópurinn meðal annars þess að fá að sjá vegabréf farþega.
Um sextíu manns voru handteknir í aðgerðum lögreglu á flugvellinum en um tuttugu eru sagðir hafa slasast, þar af nokkrir lögregluþjónar. Tveir eru sagðir vera alvarlega slasaðir eftir uppákomuna.