Öryggisráð SÞ samþykkti nýlega að senda alþjóðlegt lið undir forystu Kenía til Haítí til að ná tökum á ástandinu í landinu.
En verkefnið mætir nú þegar andstöðu í Kenía og Haíti og er ekki einu sinni byrjað. Ástæðan er að keníska lögreglan er þekkt fyrir hrottaskap og nú síðast í sumar létust að minnsta kosti 23 og mörg hundruð særðust í átökum á milli lögreglunnar og fólks sem mótmælti hækkandi vöruverði.
Mannréttindasamtök á borð við Amnesty International hafa því áhyggjur af fyrirætlunum um að senda keníska lögreglumenn til Haítí.
SÞ lýstu yfir áhyggjum í sumar vegna framgöngu lögreglunnar á Haítí en samt sem áður samþykkti öryggisráðið að senda 1.000 keníska lögreglumenn til landsins.
Ariel Henry, forseti landsins, hefur í eitt ár grátbeðið alþjóðasamfélagið um hjálp. Þungvopnuð glæpagengi fara nú með völdin í um 80% landsins en þar búa um 11 milljónir. Rán, gripdeildir, fjárkúganir, morð, mannráns og nauðganir eru hversdagslegir hlutir og 10.000 manna lögreglulið landsins ræður ekki við neitt. Glæpagengin berjast um yfirráðin á fíkniefnamarkaðnum, vopnasölu og vændi.