Fjórir breskir unglingar voru nýlega sektaðir um 30 þúsund pund hver fyrir „svalaklifur“, það er að klifra frá einni hótelsvölum yfir á aðra, á Magaluf á Spáni.
Yfirvöld á ferðamannastaðnum hafa skorið upp herör gegn þessu stórhættulega athæfi og hafa hótel brugðið á það ráð að vísa ferðamönnum sem staðnir eru að svalaklifri út af hótelum og yfirvöld beitt viðkomandi einstaklinga sektum.
Svo var í tilviki unglinganna fjögurra, en yfirvöld hafa staðfest að tveir þeirra eru 18 ára gamlir og hinir tveir 19 ára. Sænskur ferðamaður, en ekki er getið um aldur hans, var einnig sektaður. Voru gestirnir í aðgreindum tilvikum staðnir að verki á milli 4. júní og 8. ágúst, þar sem síðasta tilvikið átti sér stað klukkan sex að morgni þann 8. ágúst þegar ferðamaður sást stökkva frá einni hótelsvölum yfir á aðra. Nöfn hótelanna sem gestirnir gistu á hafa ekki verið gefin upp.
Stórhættulegt athæfi
Athæfið nefnist „balconing“ og segir Juan Feliu formaður sveitarstjórnar áhersluna vera á að háar sektir virki sem „öflugur fælingarmáttur“ gegn kærulausri og hættulegri hegðun. „Svalaklifur verður ekki liðið í sveitarfélaginu okkar. Þetta er óábyrg hegðun sem getur valdið alvarlegum og óafturkræfum meiðslum og jafnvel andláti. Slíkt er augljóslega það síðasta sem maður myndi vilja fyrir þá sem heimsækja okkur. Þetta athæfi er ekki tómstundir, þetta er stórhættulegt ábyrgðarleysi og ekki sú ímynd sem við viljum fyrir sveitarfélagið okkar.“
Hann sagði að aukin áhersla væri lögð á það hjá lögreglu að koma í veg fyrir andfélagslega hegðun, sem áður hefur valdið meiðslum og nokkrum dauðsföllum, með það að markmiði að stuðla að betri ímynd Magaluf, sem lengi hefur verið tengt við mikla drykkju og ólæti. Feliu gaf ekki upp hvort ferðamennirnir fimm hefðu greitt sekt sína eða hvernig þær verða innheimtar.
Árið 2020 voru samþykkt lög sem bönnuðu „svalaklifur“ á Balearic eyjaklasanum og geta sektir numið allt að 50 þúsund pundum. Á síðasta ári bönnuðu stjórnvöld sölu áfengis í verslunum milli klukkan 21.30 og 8.00, auk kráarrölts, tilboða um 2 fyrir 1 drykki og gleðistundir (e. happyhour) á ákveðnum stöðum á Magaluf, El Arenal og Playa de Palma á Mallorca.
Í tilkynningu um lögin árið 2020 sagði talsmaður svæðisstjórnarinnar: „Viðleitni til að kynna áfangastaðinn, kynna hann sem betri fjárfestingakost bæði opinberra aðila og einkageirans, og staðsetja hann á sífellt samkeppnishæfari og alþjóðlegum markaði, hefur nýlega orðið fyrir áhrifum af ákveðinni óborgaralegri hegðun, sem er beintengd áfengisneyslu á ákveðnum ferðamannasvæðum á Mallorca og Ibiza.“
Undanfarin ár hefur myndefni verið dreift á netinu þar sem sjá má ferðamenn klifra frá hótelsvölum yfir á aðrar eða hoppa af svölunum sínum í sundlaugina fyrir neðan.
Lifði ekki af seinna fallið
Í júlí í sumar lést 35 ára gamall Breti eftir að hafa fallið af svölum á annarri hæð á hóteli sínu í San Antonio á Ibiza. Lögregla greindi frá að fíkniefni hafi fundist í herbergi hans við leit í kjölfarið og telur lögreglan að maðurinn hafi verið undir áhrifum fíkniefna við klifrið. Síðar kom í ljós að maðurinn hafði fimm árum fyrr á sama hóteli, í september árið 2018, fallið níu metra af svölum og lent á stöng sólhlífar.
Svæðisstjórnin stöðvaði einnig útgáfu leyfa fyrir svokölluðum partýbátum árið 2020. Bátum sem voru með slíkt leyfi fyrir er óheimilt að taka gesti um borð eða hleypa frá borði á ákveðnum stöðum, meðal annars á West End á Ibiza sem er mjög vinsæll meðal þjóðverja og hollendinga. Nú í ágúst var fyrirtæki sem býður breskum orlofsgestum áfengissiglingar í Magaluf sektað um 140 þúsund pund fyrir óleyfilega siglingu. Voru starfsmenn staðnir að verki þar sem þeir fylgdu um 130 ferðamönnum frá borði, en hver þeirra hafði greitt um 40 pund fyrir siglinguna þar sem hávær tónlist var spiluð og boðið var upp á áfengi.
Stjórnvöld á eyjaklasanum kenna fækkun ferðamanna til eyjanna undanfarin slæmri ímynd ferðamannastaðanna, eigi að síður streyma þúsundir ferðamanna þangað árlega, þar á meðal mannmargir vinahópar sem hafa gefið stöðunum hina alræmdu ímynd: partýstaður og mikil drykkja og neysla.