Katie Sorensen er vinsæl á samfélagsmiðlum vestanhafs, sem svokallaður mömmu-áhrifavaldur (e. mom-influencer). Sorensen sem er þrítug og búsett í Kaliforníu í Bandaríkjunum birti árið 2020 myndbönd á Instagram þar sem hún ásakaði hjón af suður-amerískum uppruna um að hafa gert tilraun til að ræna ungum börnum hennar fyrir utan handavinnuverslun í Petaluma í Kaliforníu. Myndböndin komust á flug á samfélagsmiðlum, en ekkert var hæft í ásökun Sorensen og var hún ákærð í þremur liðum fyrir að hafa tilkynnt um glæp á fölskum forsendum.
Dómur í máli hennar féll á fimmtudag í síðustu viku, nær þremur árum eftir atvikið, og hlaut Sorensen 90 daga fangelsisdóm.
„Sorensen hefur verið látin bera ábyrgð á gjörðum sínum og við teljum niðurstöðu dómara réttláta,“ segir saksóknarinn Rodriquez í yfirlýsingu á vef héraðssaksóknara. „Við vonum að niðurstaðan séu farsæl endalok fyrir hjónin sem voru ranglega sökuð um að hafa ætlað að ræna tveimur ungum börnum.“
Var bannað að nota samfélagsmiðla
Sorensen þarf að sitja af sér minnst 60 daga en getur eftir þann tíma sótt um að sækja vinnu. Fangelsisdómurinn er þó ekki eina refsingin sem hún hlýtur því eftir að henni var sleppt úr gæsluvarðhaldi var hún skipuð í árslangt óformlegt skilorð, sem fólst meðal annars í því að henni var bannað að nota samfélagsmiðla, hún mátti þola leit og haldlagningu muna ef til þess kæmi án dómsúrskurðar og þurfti að sækja námskeið um kynþáttamisrétti, svo aðeins fátt sé talið.
Katie Sorensen says strangers tried to kidnap her kids outside the Petaluma @MichaelsStores after following them around inside. Her @instagram video (partial here) has hit 2M views. @petaluma_police investigating. She & @PollyDad speak out to @KTVU 5:15, 6:15, 7:30 p.m. pic.twitter.com/cG0wnm2JgQ
— Henry K. Lee (@henrykleeKTVU) December 15, 2020
4,5 milljónir horfðu á myndböndin
Þann 7. desember árið 2020 greindi Sorensen lögreglu frá því að hjónin hefðu gert tilraun til að ræna tveimur ungum börnum hennar fyrir utan handavinnuverslun. Um viku síðar birti hún tvo myndbönd á Instagram-reikningi sínum sem fengu um 4,5 milljón áhorfa. Hún eyddi síðar myndböndunum og reikningi sínum. Yfirvöld hafa greint frá því að upplýsingar hafi komið fram í myndböndunum, sem voru ekki í skýrslu Sorensen hjá lögreglu, ekki hefur þó verið greint frá hvaða upplýsingar það voru.
Sagði Sorensen í myndböndunum að hún og börn hennar hafi verið elt af karlmanni og konu meðan hún var að versla, og segir hún þau hafa viðhaft athugasemdir um börn hennar áður en hjónin hafi komið að þeim á bílastæði verslunarinnar. Þar segir hún manninn hafa teygt sig inn í kerruna hjá barni hennar, áður en Sorensen hrópaði á hjálp. „Þau litu ekki út fyrir að vera hrein,“ sagði hún í sjónvarpsviðtali við KVTU eftir atvikið.
Sorensen var yfirheyrð af lögreglu eftir sjónvarpsviðtalið og bar hún þá kennsl á hjónin af öryggisupptöku verslunarinnar. Hjónin neituðu öllum ásökunum og var kærumáli Sorensen lokað þar sem lögregla taldi ásakanir hennar ekki eiga stoð á sér.
Hjónin stigu fram eftir sjónvarpsviðtalið, Sadie og Eddie Martinez, en þau voru að versla jólaskraut í versluninni.
Sorensen hefur þegar hafið afplánun.