Haustið 1980 varaði lögregla við því að stórhættulegur raðmorðingi gengi laus á svæðinu utan við San Francisco í Kaliforníu. Þótt óvenjulegt væri, var tekið sérstaklega fram að viðkomandi ætti líklegast við ,,mjög alvarleg sálræn vandamál að etja.”
Hann fékk viðurnefnið Trailside Killer, sem lauslega má þýða sem ,Stígamorðingjann, þar sem veiddi fórnarlömb sín við vinsæla gönguslóða utan við borgina.
Stígamorðinginn hét í raun David Carpenter og átti hann sér langa sögu kynferðisafbrota auk þess að myrða að minnsta kosti átta manns á tímabilinu 1979 og þar til hann var handtekinn árið 1981.
Carpenter lá í leyni við skógi vaxna göngustígana þar til hann fann sér fórnarlamb, eitt eða fleiri, nauðgaði þeim og pyntaði áður en hann myrti þau. Honum þótti sérstaklega gaman að hlusta á fólkið grátbiðja um að halda lífi.
En því miður tók það lögreglu allt of langan tíma að átta sig á að morðin voru tengd og því væri raðmorðingi laus.
Misnotaði þriggja ára barn 17 ára að aldri
David Carpenter fæddist árið 1930 og fékk fyrsta dóminn fyrir kynferðisbrot aðeins 17 ára gamall fyrir að misnota þriggja ára stúlkubarn.
En fangelsisvistin gerði ekkert til að stöðva óhugnanlegar hvatir Carpenters. Árið 1960 reyndi hann að nauðga ungri konu, Lois DeAndrade að nafni en hún er móðir leikkonunnar Lisu Rinna sem meðal annars er þekkt fyrir þættina The Real Housewives of Beverly Hills.
Hann réðist á Lois með hnif og hamri en það sem líklegast bjargaði lífi hennar var að lögreglumaður á eftirlitsferð hafði grun um að eitthvað væri á seyði og náði að stöðva árásina.
Carpenter sat í fangelsi í sjö og hálft ár fyrir þá árás en var varla kominn út fyrir hlið fangelsisins þegar að hann var aftur handtekinn fyrir rán, mannrán og nauðganir.
Rétt mat sálfræðingsins og fjöldi líka
Sálfræðingur, sem fenginn var til að meta Carpenter, sagði hann afar hættulegan samfélaginu og ætti ekki að ganga laus.
Hann sagði sálfræðingnum að frá átta ára aldri hefði verið hans eina útrás, liði honum illa, að ráðast á stúlku og misþyrma kynferðislega.
Mat sálfræðingsins reyndist hárrétt. David Carpenter átti aldrei að ganga laus.
Í ágúst 1979 byrjuðu að finnast lík kvenna sem höfðu farið að skokka eða ganga eftir stigunum í skógum Bay Area svæðis San Francisco. Á milli ágúst og október fundust lík þeirra Eddu Kane, 44 ára, Barböru Schwartz, 23 ára, Anne Evelyn Anderson, 26 ára, og Mary Frances Bennett, 23 ára.
Mary Frances var stungin 25 djúpum stungusárum svo og Barbara en Edda og Anne Evelyn voru skotnar til bana.
Eftir því sem leið á haustið fundust fleiri lík. Cynthia Moreland, 18 ára og kærasti hennar Richard Stowers, 19 ára, Diane O’Connell, 22 ára og Shauna May, 23 ára fundust öll skotin til bana.
Varað við sadista
Þá loksins létu yfirvöld verða af því að setja skilti við alla helstu göngustíga og vara við að sennilegast gengi stórhættulegur morðingi laus á svæðinu. Voru konur sérstaklega varaðar við að fara inn á stígana og fólk beðið um að dreifa tíðindunum.
Lögregla hélt blaðamannafund í nóvember 1980 og sagði augljóst að morðinginn væri ekki heill á geði og að öllum líkindum sadisti. Talsmaður lögreglu sagði að öll líkin hefðu fundist í ,,niðurlægjandi” stellingum.
Svo fór að stígarnir svo að segja tæmdust af göngufólki og skokkurum en Stígamorðinginn var ekki hættur þar sem alltaf var einhver sem ekki hlýddi fyrirmælum um að halda sig frá slóðunum.
Í mars 1981 réðst morðinginn á hina tvítugu Ellen Marie Hansen og kærasta hennar og jafnaldra Steve Haertle. Hann myrti Ellen en Steve lifði árásina af þrátt fyrir að vera skotinn í hálsinn og vart hugað líf.
Og í maí myrti Stígamorðinginn sitt síðasta fórnarlamb, hina tvítugu Heather Scaggs.
Heldur enn fram sakleysi sínu
Þrátt fyrir að sleppa undan réttvísinni í tvö ár hafði lögregla safnað saman töluverðu magni gagna auk þess sem Steve, sá eini sem lifði af morðæði Carpenter, gat gefið afar greinargóða lýsingu á árásarmanninum.
Það var gerð teikning eftir lýsingu Steve og sú sýnd á öllu fréttastöðvum. Þó nokkrir þóttust kannast við Carpenter, meðal annars fyrrverandi kærasta hans sem hann hafði beitt ofbeldi.
En það sem varð David Carpenter einna helst að falli var að örfáum dögum hafði hann boðið Heather, síðasta fórnarlambinu, starf og beðið hana um að hitta sig. Og það fannst lögreglu áhugavert en allt þar til þá hafði David Carpenter ekki komið til álita af nokkurri alvöru sem morðinginn.
Sannanir á sannanir ofan
Við leit á heimili Carpenter fannst meðal annars byssan sem hann hann hafði skotið fórnarlömb sín til bana með.
Þrátt fyrir að Carpenter neitaði öllu var hann fundinn sekur um öll morðin auk fjölda annarra ákæra og fékk dauðadóm.
David Carpenter er enn á lífi, 93 ára gamall. Hann neitar enn að vera Stígamorðinginn.
,,Ég var hentugur blóraböggull,” sagði hann í viðtali árið 2013. ,,En jafnvel lögreglan vissi vel að ég var saklaus.”
En því trúir ekki nokkur maður enda sannaði ítarleg DNA rannsókn, sem gerð var lífsýnum fórnarlambanna árið 2010, sekt hans endanlega.
David Carpenter er elsti fanginn á dauðadeild í Kaliforníu í dag.