Fyrr í þessum mánuði var Hirohito Shibuya, 74 ára fjölkær japanskur maður, handtekinn ásamt einni af fyrrverandi eiginkonum sínum, hinni 43 ára Chiaki. Eru þau sökuð um að reyna að heilaþvo unga stúlku með það í huga að gera úr henni kynlífsþræl. Til þess notuðust hjúin við myndir og frásagnir af geimverum.
Shibuya neitar ásökunum en Chiaki þegir eins og steinn við yfirheyrslur.
Atburðurinn, sem varð til þess að hjúin voru handtekin, mun hafa átt sérstað þann 12. desember á síðasta ári á heimili Chiaki, við hlið heimilis Shibuya. Í næstu húsum í götunni búa í það minnsta átta af fyrrverandi „eiginkonum“ hans, þar á meðal Chiaki, auk þriggja barna.
Lögregla segir Chiaki hafi lokkað táningsstúlkuna heim með sér með því að lofa henni að þar væri alvöru spákonu sem gæti sagt til um framtíð hennar.
En engin var spákonan.
Þess í stað sýndu þau Shibuya og Chiaki stúlkunni myndir af geimverum svo klukkustundum skipti og sögðu henni ítrekað að þau væru í sambandi við slíkar og myndu þær ræna henni og flytja í þrældóm á aðrar plánetur nema hún stundaði kynlíf með þeim.
Sagði foreldrum sinum
Svo virðist sem unglingsstúlkan hafi trúað þeim og lofaði að koma heim til Chiaki daginn eftir til kynlífsiðkana og jafnvel fastrar búsetu.
En sem betur fer sagði hún foreldrum sínum alla sólarsöguna og kölluðu þau þegar í stað til lögreglu.
Samkvæmt dagblaðinu Japan Times er þetta ekki í fyrsta skipti sem Shibuya er sakaður um kynferðisbrot.
Kynferðisbrot til margra ára
Árið 2005 hélt Shibuya ungri konu nauðugri í tvo tíma og reyndi að sannfæra hana um að búa með sér og „eiginkonum sínum“ ellegar myndi hann skaða hana og drepa ef hún reyndi að flýja. Konan slapp og tilkynnti atvikið til lögreglu.
Shibuya neitaði allri sök og sagðist aðeins hafa sagt konunni frá draumi sem hann dreymdi.
Árið 2006 var Shibuya handtekinn eftir að reynt að neyða konu til sambúðar með sér með hótunum en kvennabúr Shibuya samanstóð þá af tíu konum,.
Spámaður og miðill
Shibuya hefur aldrei haft fasta vinnu svo vitað sé til, heldur séð fyrir sér sem miðill, spámaður og dáleiðari.
Við yfirheyrslur hjá lögreglu sagðist hann óvinnufær vegna þvagsýrugigtar og ofsakvíða og eina lækningin væri að hafa sem mestan fjölda kvenna nálægt sér.
Aðspurður um hvernig honum hefði tekist að lokka til sín allar þessar konur þakkaði Shibuya þar hæfileikum sínum sem spámanns og miðils og væru þau öll sátt við að lifa í kommúnu í fjölkæru sambandi. Lögregla er ekki jafn viss um að það sé ástæðan og telja margar þeirra dvelja hjá Shibuya nauðugar.
Heimildarmenn lögreglu segja Shibuya hafa byrjað að búa með fámennum hópi kvenna á aldrinum 20 til 49 ára árið 2000 og hafi ástandið svo undið upp á sig í gegnum árin.
Rannsókn lögreglu á Shibuya er enn í gangi en talið er að hann hafi hótað og brotið á fjölda kvenna í gegnum árin, meðal annars þeim er bjuggu með honum.