TV2 leitaði svara við því hjá Bente Klarlund Pedersen, yfirlækni og prófessor við Ríkisspítalann í Kaupmannahöfn.
Hún sagði að veirur kunni vel við kulda því þá fjölgi þær sér enn meira en í hita. Af þeim sökum sé meira um veirur að vetrarlagi en að sumarlagi.
Veirur komast yfirleitt inn í líkamann í gegnum munn eða nef. Hitastig nefsins er afgerandi fyrir hversu auðvelt aðgengi veirur eiga að líkamanum. Þeim mun kaldara sem nefið er, þeim mun auðveldara er fyrir veirur að fjölga sér og komast inn í líkamann.
Rannsókn ein leiddi í ljós að kvefveira fjölgar sér mun hraðar við 33-35 gráðu hita í nefinu en við 37 gráður. Auk þess gerir kalt nef að verkum að blóðið streymir hægar í gegnum það sem hefur síðan áhrif á styrk ónæmiskerfisins. Ef þú vilt draga úr líkunum á að veikjast er góð hugmynd að halda nefinu heitu.
„Það er svolítið spaugilegt að við erum mjög upptekin af að setja húfu og vettlinga á okkur þegar það er eiginlega miklu mikilvægara að halda nefinu heitu ef maður vill forðast að veirur fjölgi sér og komist inn,“ sagði Pedersen.
Það er líka góð hugmynd að halda fótunum heitum. Niðurstöður rannsóknar Center for Forkølesle sýndu að hitastig fótanna skiptir máli. Rannsóknin leiddi í ljós að fleiri fengu kvef fjórum til fimm dögum eftir að fætur þeirra voru kældir í köldu vatni miðað við samanburðarhópinn sem var bara með fæturna í tómum bala.