Eitt af þeim verkefnum, sem hann þurfti að takast á við, var að taka til í skápum á heimilinu. Þar fann hann mörg gömul bréf og ýmis skjöl sem voru falin á milli fata.
Nafn hans var skrifað utan á eitt umslagið en það hafði verið póstlagt 56 árum áður. En Tony hafði aldrei áður séð það eða bréfið í því.
Hann las bréfið og varð mjög hissa við lesturinn. Það var frá konu, Shirley, sem hann hafði átt í skammvinnu ástarsambandi við rúmum 60 árum áður.
Hún hafði skrifað að hún hefði svolítið mikilvægt að segja honum. Þessi mikilvægu tíðindi voru að hún ætti son að nafni Samuel og að Tony væri faðir hans.
Tony hafði ekki minnsta grun um að hann ætti son.
Honum tókst að hafa uppi á syninum í gegnum Facebook. Hann heitir Samuel og var 61 árs þegar feðgarnir hittust í fyrsta sinn. Hann hafði alltaf vitað hver var faðir hans en hélt að Tony vildi ekkert með hann hafa að gera.
En sannleikurinn var einfaldlega að Tony hafði ekki haft minnstu hugmynd um tilvist hans.
Fyrsti fundur þeirra feðga var að vonum mjög tilfinningaríkur eins og gefur að skilja.
„Þetta er kraftaverk,“ sagði Tony sem átti erfitt með að átta sig á að hann ætti son og að hann hefði loksins hitt hann.
Samuel var ekki síður ánægður yfir að hitta föður sinn og sagðist alltaf hafa dreymt um að eiga föður sem hann gæti notið samvista við.