En þegar sérfræðingurinn, sem heitir Matthias Marx, fékk tækið brá honum mjög í brún. Hann taldi sig hafa verið að kaupa tæki sem getur tekið fingraför og skannað augasteina en óhætt er að segja að hann hafi fengið miklu meira fyrir peningana.
SEEK II var nefnilega fullt af upplýsingum. Marx hafði því skyndilega aðgang að nöfnum, þjóðerni, ljósmyndum, fingraförum og skönnum af augasteinum 2.632 manns. The New York Times skýrir frá þessu.
Fram kemur að stærstur hluti þessa fólks sé frá Írak og Afganistan. Á meðal þeirra séu margir þekktir hryðjuverkamenn. En einnig eru þarna gögn um fólk sem starfaði með bandaríska hernum eða var bara stöðvað við vegatálma.
Rannsókn á SEEK II leiddi í ljós að tækið var síðast notað 2012 í Afganistan.
Ekki er vitað hvernig tækið endaði á eBay en það þykir ekki gott því í því eru næg gögn til að hægt sé að nota þau til að hafa uppi á Afgöngum eða Írökum sem störfuðu með bandaríska hernum.
Stewart Baker, lögmaður sem vinnur með með mál tengd bandarískri öryggisstefnu, segir að SEEK II sé gott tæki til að nota á átakasvæðum en það verði að meðhöndla það af varkárni.
„Þetta ætti ekki að hafa gerst. Þetta er hörmulegt fyrir það fólk sem hefur verið afhjúpað og í versta falli geta afleiðingarnar orðið hörmulegar,“ sagði hann.