fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Pressan

Hún varð heimsfræg fyrir að hafa læknast af krabbameini – En ekki var allt sem sýndist

Kristján Kristjánsson
Föstudaginn 25. nóvember 2022 20:30

Belle Gibson. Skjáskot/Bad Influencer: The Great Insta Con

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Belle Gibson brosti til spjallþáttastjórnendanna tveggja þegar þeir tóku viðtal við hana. Það var líka full ástæða fyrir hana að vera glöð. Hún var komin í þáttinn til að segja sögu sína, söguna um hvernig hún hafði sigrast á heilaæxli með því að borða aðeins hollan mat.

Hún var orðin fyrirmynd í heimalandi sínu, Ástralíu, og þótti lifandi sönnun þess að lyf séu ekki alltaf rétta leiðin til að takast á við sjúkdóma.

Nú lifði hún af því að hvetja aðra til að gera það sama. Í fjölmiðlum var hún kölluð „heilsufarsgúru“. Hún var nýbúin að gefa út matreiðslubók, var á forsíðum stórra tímarita og 300.000 manns fylgdu henni á Instagram.

Nú sat hún í sjónvarpssal og var á hátindi ferilsins.

En það var eitt vandamál.

Sjúkrasaga hennar var uppspuni frá rótum. Hún hafði aldrei verið með heilaæxli.

Blekkti alla

Í nýlegri heimildarmynd BBC, Bad Influencer: The Great Insta Con, er fjallað um sögu Belle Gibson.

Hver er hún?

Af hverju laug hún?

Hversu miklu af því sem maður les á samfélagsmiðlum er hægt að treysta?

Belle er ekki eina manneskjan sem hefur logið til um veikindi til að þéna peninga, fá athygli eða eitthvað annað. En Belle er líklega sú manneskja sem hefur komist lengst með lygina. Hún náði að byggja feril sinn upp á henni.

Upphafið

Saga hennar hófst 2013 þegar hún birtist á Instagram undir heitinu @healing‗belle. Hún var ung og fögur og sagðist hafa greinst með ólæknandi æxli í heila nokkrum árum áður. Hún sagði að henni hafi verið sagt að hún ætti bara fjóra mánuði eftir ólifaða því lyfjameðferðin virkaði ekki. En hún hafði ekki gefist upp og hafði fundið sína eigin aðferð til að takast á við krabbameinið og var enn á lífi, nokkrum árum eftir að hafa fengið dauðadóminn.

Hún sagðist hafa leitað í óhefðbundnar lækningar og aðferðir og hafi breytt mataræði sínu yfir í svokallað „clean eating“ þar sem hún hætti að borða kjöt, mjólkurvörur og unnin matvæli. Þess í stað sagðist hún borða ávexti og grænmeti og það virkaði sagði hún. Henni leið betur þrátt fyrir að krabbameinið væri ekki alveg horfið.

Belle mætti í spjallþætti í sjónvarpi. Skjáskot/Bad Influencer: The Great Insta Con

 

 

 

 

 

Saga hennar vakti athygli og með hverri færslu, sem hún birti á Instagram, fjölgaði fylgjendum hennar. Þeir hvöttu hana áfam og skrifuðu athugasemdir við færslur hennar, sögðu hana veita þeim innblástur og að hún væri frábær.

„Þrátt fyrir að hún væri með krabbamein í heila, dreymdi mann samt um að lifa lífi eins og hún gerði á Instagram. Allt var svo bjart og fallegt,“ segir Kylie Wille, einkaþjálfari, sem fylgdist vel með Belle. Hún hafði sjálf greinst með eitlakrabbamein 2013. Hún byrjaði að fylgja Belle því þar fékk innsýn í önnur úrræði en erfiða lyfjameðferðina sem hún var í og fannst vera að éta hana.

„Lokamarkmiðið var að vera eins og Belle Gibson,“ segir Kylie í heimildarmyndinni.

Stórir aðilar

Stórir aðilar tóku eftir Belle og fóru að fylgjast með henni og sögu hennar. Í ágúst 2013 gaf hún út matreiðslubók í samvinnu við Penguin bókaútgáfuna. Á svipuðum tíma gerði hún einnig samning við Apple um velferðarappið The Whole Pantry sem lofaði notendum heilbrigði ef þeir fylgdu grunnreglum mataræðisins sem var kynnt í því.

Á fyrsta mánuðinum var appinu hlaðið niður 200.000 sinnum og það var kjörið besta matar- og drykkjarappið 2013.

Belle hét því að gefa hluta af tekjum sínum til góðgerðarmála og það var ekki til að draga úr jákvæðu umtali um hana.

Hún komst á forsíðu tímaritsins Elle Australia sem áhrifamesta kona ársins. Cosmopolitan veitti henni verðlaunin sem „Fun, Fearless, Female“ 2014.

Fleiri krabbameinsgreiningar

Allt gekk vel hjá Belle. Í júlí 2014 birti hún enn eina færsluna á Instagram og sagði að því miður hefði krabbameinið dreift sér og að hún væri komin með tvær nýjar tegundir krabbameins.

Viðbrögð fylgjenda hennar voru mikil og hvatningarorðum rigndi yfir hana. En það voru ekki allir sem trúðu sögu hennar.

Belle á yngri árum. Skjáskot/Bad Influencer: The Great Insta Con

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Einn þeirra var blaðamaðurinn Richard Guillatt sem hafði skrifaði um heilbrigðismál fyrir dagblaðið The Australian síðan 2012.

„Af því að ég hafði talað við svo marga sérfræðinga, meðal annars krabbameinssérfræðinga, fylltist ég grunsemdum þegar ég heyrði hana tala um heilaæxli. Maður lifir ekki í fimm ár með heilaæxli án þess fá meðferð og ég gat ekki séð að einhver hefði efast um sögu hennar“ segir hann í heimildarmyndinni.

Hjólabretti og hjartaaðgerð

Haustið 2014 byrjaði Richard að leita upplýsinga um Belle á Internetinu. En það var ekki auðvelt því nánast allar upplýsingar um hana frá því fyrir 2013 höfðu verið fjarlægðar.

En leit hans leiddi hann á spjallsíðu hjólabrettafólks. Þar kom nafnið Belle Gibson fram. Í fyrstu áttaði hann sig ekki á þessu. Aldurinn var ekki réttur og hún drakk áfengi, renndi sér á hjólabrettum og var allt öðruvísi en sú Belle Gibson sem hann þekkti úr fjölmiðlum.

Enn frekari rannsóknir og ljósmynd af handlegg hennar, sem var með húðflúr eins og var á Belle Gibson, sannfærði hann að lokum. Þetta var ein og sama konan.

Belle á yngri árum. Skjáskot/Bad Influencer: The Great Insta Con

 

 

 

 

 

Í ljós kom að Belle hafði ekki aðeins logið til um aldur sinn því þegar hann gróf enn dýpra komst hann að fleiri hlutum sem voru athyglisverðir. „Ég fann texta eftir hana þar sem hún skrifaði að hún hefði farið í hjartaaðgerð og hefði verið dáin á skurðarborðinu í þrjár mínútur áður en hún var endurlífguð. Allar myndir og textar vitnuðu um yngri Belle Gibson sem bjó til mikið af dramatískum sögum. En hvergi kom fram að hún hefði verið með heilaæxlið sem hún varð síðar þekkt fyrir,“ segir hann.

Brestir komu í sögu Belle

Richard reyndi nú að fá viðtal við Belle og það tókst. Þau hittust á kaffihúsi í Melbourne í mars 2015.

„Það fyrsta sem ég tók eftir var hversu heilbrigð hún virtist vera. Annað var hversu illa útskýringar hennar héngu saman. Hún afsakaði sig með að sjúkdómar hennar hefðu haft áhrif á minni hennar,“ segir hann í heimildarmyndinni.

Þegar viðtalið var um það bil hálfnað spurði Richard hana út í þær nýju tegundir krabbameins sem hún hafði greinst með. Belle svaraði að hún teldi að greiningarnar hefðu ekki verið réttar og að hún væri ekki með krabbamein. „Ég var algjörlega orðlaus“ segir Richard.

Hún sagði síðan að frá 2011 hafi hana grunað að hún væri ekki með krabbamein en að hún hefði ekki sagt fylgjendum sínum neitt því það hefði verið svo mikið áfall fyrir hana að hafa verið greind ranglega með krabbamein.

Nokkrum dögum eftir að þau hittust birti Richard grein sína undir fyrirsögninni „Megabloggari efast um eigin krabbameinsfullyrðingar.“

Spilaborgin hrundi

í kjölfarið voru fleiri greinar, þar sem Belle var gagnrýnd, birtar. Blaðamenn um alla Ástralíu byrjuðu nú að kafa ofan í sögu hennar. Þeir komust að því að hún hafði ekki gefið neitt af ágóðanum af sölu matreiðslubókarinnar til góðgerðarmála eins og hún hafði lofað.

Í fjölmiðlum var rætt um hversu margir hefðu látist af því að Belle hefði sannfært þá um að hætta hefðbundinni læknismeðferð.

Fylgjendur hennar sneru baki við henni og hópur var stofnaður á Facebook þar sem henni var kennt um eitt og annað.

Enginn, sem stóð henni nærri, kom henni til varnar í fjölmiðlum. Algjör þögn ríkti.

Dómurinn

Eftir að það komst upp um svik Belle var hún dregin fyrir dóm, sökuð um að hafa villt fyrir fólki.

Hún var sakfelld 2017 og gert að greiða sem nemur um 39 milljónum íslenskra króna í sekt.

Eftir þetta hefur Belle að mestu haldið sig frá fjölmiðlum. Í október 2020 birtist hún í myndbandi á Facebook. Það var sett inn af samtökum Eþíópíufólks í Melbourne.

Hún var með höfuðklút að múslímskum sið og sagðist heita Sabontu. Hún sagði að Eþíópíufólk í Melbourne hefði tekið henni opnum örmum.

Hún sagðist hafa verið hluti af samfélagi þeirra í fjögur ár og teldi sig hluta af hópnum sem hefði tekið henni vel.

En eftir að bent var á hún væri svikahrappurinn Belle Gibson tók Eþíópíufólkið afstöðu gegn henni.

Eftir það hefur ekkert heyrst frá henni og ekki er vitað hvar hún býr eða hvað hún gerir í dag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe
Pressan
Fyrir 2 dögum

Áttræð kona lét lífið út af bilun í rafmagnsrúmi – „Hún þjáðist allan tímann“

Áttræð kona lét lífið út af bilun í rafmagnsrúmi – „Hún þjáðist allan tímann“
Pressan
Fyrir 2 dögum

Dularfullir drónar herja á New Jersey – Enginn veit hvaðan þeir koma eða hvers vegna þeir eru þarna

Dularfullir drónar herja á New Jersey – Enginn veit hvaðan þeir koma eða hvers vegna þeir eru þarna
Pressan
Fyrir 3 dögum

Tik-Tok-maðurinn dæmdur

Tik-Tok-maðurinn dæmdur
Pressan
Fyrir 4 dögum

Fann bróður sinn eftir 25 ára aðskilnað – Nú hefur sagan tekið óvænta og ljóta stefnu

Fann bróður sinn eftir 25 ára aðskilnað – Nú hefur sagan tekið óvænta og ljóta stefnu