fbpx
Föstudagur 02.maí 2025
Pressan

Kaffisopi á flugvellinum varð morðingjanum að falli

Kristján Kristjánsson
Fimmtudaginn 21. júlí 2022 22:30

Lindy Sue Biechler

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 5. desember 1975 fannst Lindy Sue Biechler látin á heimili sínu í Lancaster í Pennsylvania í Bandaríkjunum. Hún hafði verið myrt, 19 stungusár voru á líkama hennar. Hún lá á bakinu þegar hún fannst og stóð hnífur út úr hnakka hennar og viskastykki var vafið um tréskaft hans. Hún var nýkomin heim úr matvöruverslun þegar hún var myrt og stóðu pokar, merktir versluninni, á borðstofuborðinu.

Á sunnudaginn var maðurinn, sem er grunaður um að hafa myrt hana, handtekinn á heimili sínu. CNN skýrir frá þessu og segir að þetta komi fram í fréttatilkynningu frá saksóknaraembættinu í Lancaster County.

Á þeim rúmu 46 árum sem eru liðin síðan Lindy var myrt hafa Manor Township lögreglan og Pennsylvania State Police rannsakað morðið, fylgt fjölda vísbendinga eftir og hreinsað tugi manna undan grun. Fjöldi fólks var yfirheyrður og hin ýmsu sönnunargögn send til rannsóknar á hinum ýmsu rannsóknarstofum.

Það var með aðstoð erfðafræðirannsókna, sem byggðust á DNA sem fannst á morðvettvanginum, sem lögreglunni tókst að hafa hendur í hári hins meinta morðingja. Hann heitir David Vincent Sinopoli og er 68 ára.

Hann var handtekinn á sunnudaginn og úrskurðaður í gæsluvarðhald. Hann getur ekki fengið lausn gegn tryggingu.

David Sinopoli

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Heather Adams, saksóknari í Lancaster County, sagði í fréttatilkynningu að handtakan marki upphafið að lokakaflanum í elsta óleysta morðmálinu í Lancaster County. Það sé von saksóknaraembættisins að þetta muni að einhverju leyti verða léttir fyrir aðstandendur Lindy og íbúa í Lancaster County.

Kaffisopi varð honum að falli

Saksóknaraembættið sendi sönnunargögn, sem fundust á morðvettvangi, til rannsóknar árið 1997. Í þeim fannst DNA úr karlmanni í nærbuxum Lindy.

Þremur árum síðar voru upplýsingarnar um þetta DNA skráðar í gagnagrunn á landsvísu, CODIS, til að kanna hvort það gæfi svörun við þekktan brotamann. En engin svörun fannst í CODIS.

Í ársbyrjun 2019 var settur aukinn kraftur í rannsókn málsins þegar sú deild saksóknaraembættisins, sem sérhæfir sig í rannsókn gamalla sakamála, tók við rannsókninni.

Upplýsingar um erfðamengi morðingjans voru sendar til Parabon NanoLabs. Rannsóknir þar veittu ekki upplýsingar um ákveðinn einstakling og því varð að beita óhefðbundnum aðferðum við að þrengja hringinn. Þó lá fyrir að morðinginn væri líklega af ítölsku bergi brotinn. Vísindamenn rannsökuðu því landfræðilega þætti og unnu út frá upplýsingum um innflytjendur til Bandaríkjanna og fjölskyldunöfn þeirra. Út frá þessu komust þeir að því að morðinginn ætti rætur að rekja til Gasperina sem er bær í Calabria á Ítalíu.

Nokkrir einstaklingar bjuggu í Lancaster sem voru á réttum aldri, kyni og voru með ættartré sem passaði við þetta. Af þeim sökum var hægt að þrengja hringinn.

Sinopoli og Lindy bjuggu eitt sinn í sama fjölbýlishúsinu að sögn saksóknara sem sagði ekki hvenær það var. Hann fór ekki nánar út í hvernig þau hefðu hugsanlega tengst að öðru leyti. En þetta varð til þess að grunur lögreglunnar beindist að honum.

Lögreglan fylgdist vel með Sinopoli og það bar árangur þann 11. febrúar síðastliðinn. Þá var hann staddur á alþjóðaflugvellinum í Philadelphia. Hann fékk sér kaffibolla þar og henti honum síðan í ruslið. Það sáu lögreglumenn og tóku þeir bollann til handargagns og sendu til rannsóknar. Lífsýni á honum gáfu fullkomna svörun við lífsýnin sem fundust á Lindy fyrir rúmum 46 árum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Vísindamönnum er brugðið yfir nýrri veiru – Stærri en kórónuveiran

Vísindamönnum er brugðið yfir nýrri veiru – Stærri en kórónuveiran
Pressan
Fyrir 2 dögum

Var algjörlega ómeðvitaður um hörmungarnar sem áttu sér stað fyrir neðan hann

Var algjörlega ómeðvitaður um hörmungarnar sem áttu sér stað fyrir neðan hann
Pressan
Fyrir 4 dögum

Hófdrykkjufólk er í aukinni hættu á að fá krabbamein og hjarta- og æðasjúkdóma

Hófdrykkjufólk er í aukinni hættu á að fá krabbamein og hjarta- og æðasjúkdóma
Pressan
Fyrir 4 dögum

Ekki henda lónni úr þurrkaranum – Hún getur komið að góðu gagni

Ekki henda lónni úr þurrkaranum – Hún getur komið að góðu gagni