Kim Jong-un, einræðisherra, hefur sagt að faraldurinn sé „miklar hamfarir“. Hann hefur kallað herinn til starfa í baráttunni gegn veirunni og yfirvöld hafa einnig gripið til þess bragðs að koma með vafasamar ráðleggingar til landsmanna.
Enginn hefur verið bólusettur gegn veirunni í landinu því yfirvöld afþökkuðu að fá bóluefni frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni WHO, Kína og Bandaríkjunum þegar það stóð til boða.
Landið glímir því við að að íbúarnir eru ekki bólusettir, lítil geta er til sýnatöku og mikill lyfjaskortur. Poonam Khetrapal Singh, svæðisstjóri WHO í Suðaustur-asíu, segir að þar sem bólusetningar séu ekki hafnar í landinu sé hætta á að veiran dreifi sér mjög hratt meðal landsmanna.
Í gær kynnti Kim Hyong, varaheilbrigðisráðherra, síðan viðbragðsstefnu stjórnvalda vegna faraldursins. Meðal þeirra ráða sem almenningi eru veitt er að skola munn og háls með saltvatni og drekka geitatoppste þrisvar á dag. Einnig er mælt með notkun verkjalyfja ef fólk er með hita.