Hin bandaríska Angela Tramonte lést á stefnumóti sínu með lögreglumanninum Dario Dizdar, en hún var einungis 31 árs gömul. New York Post greinir frá þessu.
Þau eiga að hafa farið saman í fjallgöngu í Arizona-fylki, en þar hækkaði hitastig skyndilega ansi mikið, sem er rannsakað sem möguleg ástæða fyrir andláti hennar.
Um var að ræða fyrsta stefnumót þeirra Angelu og Dario. Hún hafði flogið frá heimaborg sinni í Boston til Phoenix til að hitta hann, en þau höfðu verið að tala saman í gegn um netið á marga mánuði og voru að hittast í fyrsta skipti.
Þennan dag náði hitastigið upp í 40 gráður á selsíus. Dizdar segir að miðri leið hafi Tramonte orðið þreytt á hitanum og ákveðið að snúa við, á meðan hann hélt áfram að ganga upp fjallið. Hann segist hafa haldið að þau myndu hittast á bílastæði við fjallstæturnar, en svo var ekki.
Í skýrslutöku var haft eftir honum að hún vildi að hann myndi ganga alla leið á toppinn svo hann gæti tekið myndir þar, sem hún gæti svo deilt á samfélagsmiðlum.
Einhverjum fjölskyldumeðlimum og vinum Tramonte finnst málið grunsamlegt, þar sem að hvorugt þeirra Angelu og Dario var með vatn með sér í þessum steikjandi hita. En lögreglan hefur tekið fram að málið sé ekki rannsakað sem sakamál.
Dario Dizdar hefur starfað hjá lögreglunni í Phoenix, en hann hefur komist á lista sem fjölmiðlar vestanhafs opinberuðu, er varðar lögreglumenn sem taldir eru hafa verið óheiðarlegir í starfi.