Fimmtíu og tveggja ára kona í Suður-Karólínu í Bandaríkjunum, Lana Clayton, hefur verið ákærð fyrir að myrða eiginmann sinn. Aðferðin sem Lana er sögð hafa beitt við morðið er athyglisverð en hún er sögð hafa notað augndropa til að koma eiginmanninum fyrir kattarnef.
Krufning á líki hins 64 ára Stephen Clayton leiddi í ljós að í líkama hans var að finna efnið tetrahydrozoline í miklu magni. Efnið finnst í augndropum sem nálgast má í apótekum vestan hafs og hefur Lana játað að hafa blandað augndropunum við vatn sem Stephen drakk.
Þetta er hún sögð hafa gert í nokkra daga og mun Stephen hafa látist vegna eitrunar. Hann fannst látinn á heimili sínu þann 21. júlí síðastliðinn.
Lana á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi verði hún fundin sek.