Það eru bresku neytendasamtökin „Which?“, sem halda þessu fram að sögn Express. Samtökin telja sig geta sýnt fram á að flugfélög gefi af ásettu ráði upp lengri flugtíma en raun er til að virðast vera stundvísari og „lendi á réttum tíma“.
Þetta hefur í för með sér að farþegar verða að eyða meiri tíma á flugvöllum og í flugvélum og verða stundum af möguleikanum á að fá greiddar bætur vegna seinkana.
Flugfélögin vísa þessum staðhæfingum „Which?“ á bug. Samtökin rannsökuðu meðalflugtímann á 125 flugleiðum sem stór flugfélög flugu 2009 og báru saman við stöðuna í dag. Meðal niðurstaðna er að áætlaður flugtími hjá Ryanair á milli London Stansted og Berlín Schönefeld er sagður vera 10 mínútum lengri í dag en 2009. Hjá Easyjet hefur áætlaður flugtími á milli Gatwick og Berlín lengst um 19 mínútur á 10 árum.
Áætlaður flugtími reyndist vera lengri í dag en 2009 á 61 prósentum af þeim 125 flugleiðum sem skoðaðar voru. Þetta hefur gerst þrátt fyrir að flugvélar séu orðnar fullkomnari en 2009.