fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Þvottakonan og þjófurinn

Ritstjórn DV
Laugardaginn 27. október 2018 13:30

Cooper’s-kráin í Chadwell Heath Hér hleraði Toddy samtal Millyjar og vinkonu hennar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Einu sinni var ekkja í Chadwell Heath í Essex á Englandi. Ekkjan hét Milly Blunt og var 43 ára þegar þessi saga hefst árið 1864. Milly sá sér farborða með því að þvo þvott fyrir þá sem þess óskuðu, og þeirri vinnu hafði hún sinnt eftir að eiginmaður hennar féll frá og tvö börn þeirra hjóna, af fjórum, höfðu dáið. Um þriggja ára skeið hafði Milly verið í sambandi með þjófóttum drykkjusvola, Francis „Toddy“ Wane, en þegar þarna var komið sögu hafði hún fengið sig fullsadda af honum og því sem honum fylgdi og slitið sambandinu.

Brúðkaup í vændum

Í kjölfarið vænkaðist hagur Millyjar því hún fékk starf sem fólst í þrifum á krá einni og að auki gerðist hún ráðskona hjá 78 ára gömlum herramanni, James Warren. James þessi bjó ásamt 49 ára syni sínum, John, í gömlu húsi á Chadwell-heiðinni. Þess var skammt að bíða að Milly og John felldu hugi saman og um síðir ákváðu þau að ganga í hjónaband.

Þegar Toddy heyrði þau tíðindi varð hann vægast sagt brjálaður og hugsaði sitt.

Toddy í morðskapi

Í ágústlok þetta ár kíkti Toddy inn á White Horse-krána á leið sinni heim frá Romford. Þar sem hann sat og kneyfaði öl hitti hann kunningja sinn, opinberan starfsmann að nafni Joseph Rogers. Þeir tóku  tal saman og sagði Toddy honum að hann hygðist drepa konu. Rogers leist ekkert á hvert samtalið stefndi og bað Toddy lengstra orða að láta af öllum slíkum áformum.

White Horse-kráin
Vinur Toddys fékk að heyra af áformum hans yfir ölkrús á þessari krá.

Biður um annað tækifæri

Toddy gaf lítið fyrir ráðleggingar Rogers og sagði: „Nei, lagsi. Ef þú verður staddur einhvers staðar á Englandi næsta mánuðinn þá munt þú komast að raun um að ég hef orðið henni að bana.“ Segir ekki frekar af samræðum Toddys og Rogers og víkur frásögninni nú fram um viku.

Þá sat Milly á kránni og sötraði öl með framtíðartengdaföður sínum og sonarsyni hans. Birtist þá ekki nema Toddy sem vindur sér að henni og grátbað hana að gefa honum annað tækifæri.

Milly tók óstinnt í bón Toddys og sagði að myndi aldrei verða. Brást Toddy hinn versti við: „Milly, þú verður að deyja.“ Vertinn á White Horse-kránni, Charles Fitch, sem lengi hafði haft horn í síðu Toddys, ákvað að skerast í leikinn og gerði Toddy brottrækan af kránni.

Legið á hleri

Þann 24. september fór Toddy á Cooper’s-krána í morgunsárið. Hann vissi sem var að Milly keypti inn í verslun við hliðina og masaði gjarna við vinkonu sína í leiðinni. Milly brá ekki út af vana sínum og samræður vinkvennanna snerust eðli málsins samkvæmt að mestu leyti um væntanlegt brúðkaup. Þar sem Toddy sat á kránni gat hann heyrt hvert einasta orð sem þeim fór á milli.

Cooper’s-kráin í Chadwell Heath
Hér hleraði Toddy samtal Millyjar og vinkonu hennar.

Skorin á háls

Milly fór síðan heim, kláraði þvottinn og hóf svo vinnu við brúðarkjólinn. Innan skamms fann hún til þorsta og bað því James gamla að skjótast á White Horse og kaupa handa henni öl, eina og hálfa pintu nánar tiltekið.

James taldi það ekki eftir sér, rölti á krána og kom heim um hálftíma síðar. Litlu mátti muna að James hnyti um illa útleikið lík Millyjar. Hafði hún verið skorin á háls og voru skurðirnir, þrír talsins, svo djúpir að hægt var að finna fyrir hálsliðunum.

Toddy hittir William Calcraft

Toddy var handtekinn í snarhasti en bar af sér allar sakir, sagðist ekki einu sinni hafa verið í Chadwell Heath þennan morgun. Ekki var hlustað á hann og síðar réttað yfir honum í Chelmsford þann 14. desember 1864.

Hann sagðist vera saklaus en kviðdómur taldi hið gagnstæða og Francis „Toddy“ Wane var hengdur af William Calcraft 28. desember 1864 fyrir framan um 1.500 áhorfendur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Mörg dæmi um að frændhygli, kunningsskapur og pólitísk fyrirgreiðsla ráði för – „Og svo spurði ég um spillingu“

Mörg dæmi um að frændhygli, kunningsskapur og pólitísk fyrirgreiðsla ráði för – „Og svo spurði ég um spillingu“
Fréttir
Í gær

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Í gær

Dómur kveðinn upp yfir manni sem réðst á starfsmann Landspítalans

Dómur kveðinn upp yfir manni sem réðst á starfsmann Landspítalans
Fréttir
Í gær

Segir það verða sannkallaða martröð fyrir Rússa ef þeir ráðast inn í stórborgina Kharkiv

Segir það verða sannkallaða martröð fyrir Rússa ef þeir ráðast inn í stórborgina Kharkiv
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jólaskotárásin á Hvaleyrarholti – Faðirinn skýldi 9 ára dóttur sinni fyrir skothríðinni

Jólaskotárásin á Hvaleyrarholti – Faðirinn skýldi 9 ára dóttur sinni fyrir skothríðinni
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“