fbpx
Fimmtudagur 06.nóvember 2025
Leiðari

Óbærileg þögn: „Halda áfram að hundsa skítugu börnin hennar Evu”

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Laugardaginn 7. mars 2020 12:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fréttaskýringaþátturinn Kveikur kafaði ofan í fátækt á Íslandi í þætti sem sýndur var í vikunni. Hann var allt í senn; upplýsandi, átakanlegur og svo sorglegur að hann nísti hjartað. Eins og bent var á í þættinum höfum við flest eflaust verið blönk einhvern tímann á ævinni. Fátækt er hins vegar eitthvað allt annað og meira. Niðurlæging, óöryggi og kvíði sem enginn á að þurfa að lifa við.

Viðmiðum fátæktar var varpað upp á skjáinn. Ef áhorfendur tengdu við einhverjar af fullyrðingunum hafa þeir búið við eða búa núna við fátækt. Þeir sem tengja við flest allt eða allt búa við sára fátækt.

Í kjölfarið hef ég tekið eftir að sífellt fleiri á mínum samfélagsmiðlum hafa opnað sig um þau tímabil í sínu lífi þegar þau bjuggu við fátækt. Sumir hreinlega áttuðu sig ekki á að um fátækt væri að ræða fyrr en viðmiðin birtust svört á hvítu á sjónvarpsskjánum. Sem betur hafa flestallir minna kunningja og vina komist út úr vítahring fátæktarinnar. Það er meira en að segja það og margir ná aldrei að losa fátæktarsnöruna og hún erfist kynslóða á milli, eins og sást í þætti Kveiks.

Það er ekki ofsögum sagt að þáttur Kveiks lét afar fáa ósnortna. Fólkið sem steig fram og afhjúpaði sínar aðstæður, sinn ótta og brostna drauma eru hetjur. Það er samfélagslega samþykkt að tala um alls kyns hræðslu og sorg, en fátækt er ekki þar á meðal. Það er ólýsanlega erfitt að biðja um hjálp í fjárhagskröggum og stoltið situr eftir, sært og aumt og bíður þess hugsanlega aldrei bætur. Fólki finnst það bregðast sem manneskja, bregðast börnunum sínum, sér oft enga leið út. Lifir í óvissu hvern dag um hvort það fái að borða, hvort það eigi þak yfir höfuðið, hvort óvænt útgjöld muni sprengja allt heimilislífið upp – þurrka það út. Allt út af peningum.

Þó að fólkið sem kom fram í Kveik sé sumum fjarlægt er það samt allt um kring. Það vinnur með þér. Börn þess ganga í skóla með þínum börnum. Þú keyrir fram hjá því er það bíður eftir strætó. Þú rekst á innkaupakerruna þess í Bónus. Þetta eru nefnilega miklu fleiri en þú eða ég gerum okkur grein fyrir.

Því ber að fagna að þáttur Kveiks hafi orðið til þess að æ fleiri opni sig um fátækt á samfélagsmiðlum. Það geta nefnilega allir lent í þessari stöðu, að allt hrynji. Og því miður er afskaplega lítið og dapurlegt sem grípur þá sem höllum fæti standa.

Þögn stjórnvalda eftir þennan vandaða og átakanlega þátt Kveiks er ærandi. Óþægileg. Hvorki meirihluti né minnihluti lætur sig málið varða. Heldur áfram að hundsa skítugu börnin hennar Evu. Heldur áfram að röfla um kaupmátt og jafnrétti, frábær lífsskilyrði og besta vatn í heimi. Gasprar um norræna velferðarsamfélagið og lífskjarasamninga.

Á meðan misstígur sig einhver og fellur í fátæktargildruna sem gleypir menn og konur með húð og hári. Og maður spyr sig; hve lengi á þessi þögn yfirvalda að vara?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

„Þetta var svona eins og Jesúbarnið“

„Þetta var svona eins og Jesúbarnið“
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Skattahækkanir í Bretlandi ástæða þess að ríka fólkið er að flýja – „Þegar maður sér kerfi sem eru að hrynja, þá spyr maður sig“

Skattahækkanir í Bretlandi ástæða þess að ríka fólkið er að flýja – „Þegar maður sér kerfi sem eru að hrynja, þá spyr maður sig“
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Ronaldo opinberar hvernig hann bað Georginu – Er ekki rómantískur og gerðist um miðja nótt

Ronaldo opinberar hvernig hann bað Georginu – Er ekki rómantískur og gerðist um miðja nótt
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Njarðvík staðfestir ráðningu á Davíði Smára

Njarðvík staðfestir ráðningu á Davíði Smára
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Enn deilt um Blóðberg: Bók með lýsingum á hópnauðgun skyldulesefni hjá ungmennum

Enn deilt um Blóðberg: Bók með lýsingum á hópnauðgun skyldulesefni hjá ungmennum
Fókus
Fyrir 14 klukkutímum

Draugamandarínur á kettinum

Draugamandarínur á kettinum
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Lögreglan varar við kræfum vasaþjófum – Fylgjast með fólki sem notar hraðbanka

Lögreglan varar við kræfum vasaþjófum – Fylgjast með fólki sem notar hraðbanka
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Þetta eru félögin sem bíða og sjá hvort Barcelona mistakist að landa Rashford – Tvö á Englandi

Þetta eru félögin sem bíða og sjá hvort Barcelona mistakist að landa Rashford – Tvö á Englandi