fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024
Fréttir

Ingibjörg: „Ég neita að bera virðingu fyrir krabbameini“

Auður Ösp
Mánudaginn 11. mars 2019 15:20

Ingibjörg Rósa

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ingibjörg Rósa Björnsdóttir vinnur um þessar mundir að uppistandssýningu sem sýnd verður á Edinborgarhátíðinni í sumar. Sýningin ber hið skemmtilega heiti Sense of Tumour og er byggð á reynslu Ingibjargar af því að greinast og takast á við krabbamein.

2016 var áskorunarár

Ingibjörg flutti til Englands árið 2013 en hún hefur í gegnum tíðina starfað sjálfstætt við blaðamennsku og meðal annars tekið að sér stundakennslu í skrifum við Háskóla Íslands og Háskólann á Bifröst. Árið 2016 fagnaði hún fertugsafmæli sínu og ákvað í tilefni þess að skora á sjálfa sig með alls kyns nýjum hlutum. Einn af þeim hlutum var uppistand.

„Uppistandið átti bara að vera eitt námskeið með útskriftarsýningu í London þar sem ég bjó. En svo var þetta svo gaman að ég hélt aðeins áfram og hef verið með annan fótinn í því síðan, ekki síst við að skipuleggja uppistandssýningar.“

Ingibjörg flutti síðan til Skotlands í október 2016 en þar hefur hún meðal annars sinnt greinaskrifum, þýðingum og kennslu auk þess að koma á laggirnar skosk/íslenskri uppistandshátíð sem haldin var í Reykjavík á síðasta ári við góðar undirtektir.

„Edinborg er nokkurs konar vagga uppistands í Bretlandi svo ég datt fljótlega inn í þá kreðsu en hef unnið fyrir mér með greinaskrifum, þýðingum og kennslu og verið  dálítið mikið á þeytingi milli Íslands og Skotlands.“

Ekki hægt að bjóða upp á endalausar „pulsuveislur“

Að hverju hefurðu helst verið að gera grín þegar þú kemur fram?

„Ég byrjaði nú í þessu klassíska: það að vera Íslendingur, íslenskan, fótboltinn og svo stefnumótamenningin og allt það. Íslandsvinkillinn gefur jú alltaf dálítið forskot en ég var orðin svolítið leið á því efni þegar ég kom til Edinborgar og fór í dýpra og persónulegra efni, sem er erfiðara að vinna með og koma almennilega til skila. Og satt að segja gafst ég dálítið upp eftir það, tók mér langa pásu því mér fannst ég kannski ekki alveg nógu fyndin til að geta fengið fólk til að hlæja að alvarlegri atburðum úr lífi mínu.“

Aðspurð segir Ingibjörg að vissulega sé erfiðara fyrir konur að koma sér á framfæri í uppistandsheiminum.

„Það er erfitt fyrir öll kyn að koma sér á framfæri í bransa sem hefur lengi verið helgaður einu kyni. En þetta er sem betur fer að breytast hægt og rólega. Skipuleggjendur eru farnir að  verameira vakandi fyrir því að það sé ekki hægt að bjóða áhorfendum upp á endalausar pulsuveislur!

En ég finn líka að konur eru farnar að sækja meira í að mæta á uppistandskvöld af því að þetta eru ekki eingöngu strákaklúbbar lengur heldur eru konur að gera grín að einhverju sem þær tengja betur við. En þú sérð það á flestum auglýsingum og plakötum, það eru vanalega alltaf karlkyns skemmtikraftar í meirihluta. Ein vinkona mín hér úti, mikilsvirtur uppistandari, lenti í því um daginn að vera auglýst sem „Kvenkyns-uppistandarinn okkar í ár…“ á einhverju galakvöldi. Við skellihlógum að þessu, þetta var einhver eldgamall golfklúbbur að reyna að ná í skottið á breyttum tímum, rosa stoltir af sér greinilega!“

Er mikill munur á húmor hjá Skotum og Íslendingum?

Skotar og Íslendingar hafa mikinn samhljóm og þess vegna einmitt hef ég verið að reyna að rækta þessi tengsl milli uppistandssenanna í báðum löndum. Það eina sem truflar stundum er að skilja hreiminn og sérstök orð, þannig að ég er frekar feimin við að tala mikið við áhorfendur, ef þeir eru flestir skoskir. Eins og ég segi samt, ég hef ekki verið mikið að fara upp á svið sjálf undanfarið ár, fyrr en núna, og þá með dálítið eldfimt efni svo viðtökurnar eru eitthvað sem ég er að læra á, ég er enn að prófa, og skrifa nýja efnið til að finna réttu aðferðina svo viðtökurnar eru ekki alveg marktækar ennþá.“

Margir fá sjokk í byrjun

Þann 20. desember síðastliðinn greindist Ingibjörg með hraðvaxandi brjóstakrabbamein og gekkst hún undir  aðgerð fjórum vikum seinna. Hún er nú nýbyrjuð í lyfjameðferð sem lýkur í júní og því næst tekur við geislameðferð. Það kann að hljóma furðulega að í raun var það krabbameinið sem kom henni aftur af stað í uppistandið, en Ingibjörg hafði þá ekki stigið á svið í rúmt ár.

„Ég er bara þannig að ég verð að gera grín að hlutunum, út á við, til að höndla þá. Svo að þegar ég var að springa úr svörtum húmor þá skellti ég mér með vinum mínum á „open mic“ og sögurnar byrjuðu að flæða. Vanalega fær fólk mikið sjokk í byrjun, sérstaklega þar sem ég hef hingað til alls ekkert litið út fyrir að vera veik þannig að ég gat komið þeim alveg að óvörum. Og ég verð að viðurkenna að ég fékk sjálf dálítið kikk út úr því, sem er kannski óréttlátt gagnvart áhorfendum en þeir voru vanalega fljótir að sjá að það væri í lagi að hlæja með mér að þessu – ekki hlæja að mér eða að krabbameininu heldur mínum persónulegu viðbrögðum og hugsunum varðandi sjálfa mig sem krabbameinssjúkling.

Þetta er samt heilmikill línudans og ég hef farið með nákvæmlega sama sett tvö kvöld í röð, fyrra kvöldið grenjuðu allir af hlátri en seinna kvöldið var meiri þögn og spenna. Það fer eftir aldurssamsetningu hópsins, salnum, sviðinu, það eru ótrúlega margir þættir sem spila inn í og ég er sem sagt akkúrat bara að læra hvað virkar í hvaða aðstæðum. Mér sýnist til dæmis yngra fólk eiga erfiðara með að höndla orðið „krabbamein“ – fer miklu frekar í baklás en eldra fólk. Kannski þarftu ákveðna lífsreynslu til að geta hlegið að svona alvarlegheitum og dauðleikanum. En ég þarf þá líka að læra hvernig ég get upplýst þau og fengið þau til að slaka á með það að hlæja að krabbameininu mínu. Því það er líka það sem þarf að vera á hreinu, ég er ekki að gera grín að krabbameini yfirhöfuð eða að öðrum krabbameinsveikum. Þetta byggist allt einungis á minni upplifun og minni sýn.“

Ingibjörg segir það hjálpa mikið í þessu ferli að nota húmorinn og sjá spaugilegu og kaldhæðnislegu hliðarnar á hlutunum.

„Ég neita að bera virðingu fyrir krabbameini. Það tók pabba minn frá mér þegar ég var unglingur sem og fleiri og hefur oft ógnað ástvinum mínum í gegnum tíðina. En í þetta skipti varð ég í raun aldrei hrædd, nema kannski í nokkra daga þegar ekki var vitað hvort meinið hefði náð að dreifa sér. Svo var ekki þannig að ég hef fulla trú á að ég nái heilsu aftur og veit um leið hvað ég er rosalega heppin.

Þess vegna tek ég þessu svona afslappað en ég þarf líka að tjá mig um þessa reynslu og það kemur bara út í gríni. Kannski líka af því að ég er frekar mikill einfari, bý ein og hef alltaf séð um mig sjálf. Fjölskyldan og flestir vinirnir búa á Íslandi þannig að ég þarf allt í einu að tjá mig meira við þau til að leyfa þeim að fylgjast með þróuninni. Ég þekki það vel að vera aðstandandi og veit að þau þurfa að fá fréttir en ég vil ekki að neinn hafi áhyggjur af mér svo ég fer í gríngírinn. Og ég meina „kommon“, tilhugsunin um að skvísa eins og ég þurfi kannski að ganga með bleiu ef ég skyldi hnerra meðan óheppilegar aukaverkanir af einu lyfjanna minna standa yfir … ég meina, hvað er ekki fyndið við það?“

Ingibjörg Rósa

Erfitt að vera fjarri ástvinum

Það er ekki auðvelt að takast á við veikindi í öðru landi, fjarri fjölskyldu og vinum. Ingibjörg má ekki fljúga til Íslands meðan á meðferðinni stendur og reiðir sig því á að ástvinir hennar heimsæki hana til Edinborgar.

„Ég er nú þegar búin að setja upp nokkurs konar ferðasjóð á fjáröflunarsíðu. Eins og ég segi, það er erfitt fyrir fjölskyldu og vini að vera í öðru landi meðan ég er í meðferðinni og á meðan má ég ekki fljúga til Íslands þá sjá þau mig ekkert fyrr en í fyrsta lagi í haust. En ég á góða systur og vinkonur sem eru æstar í að skiptast á að koma til mín og hjálpa mér svo mér datt í hug að þau sem vildu gera „eitthvert gagn“ gætu leyst það svona, hjálpað mér að endurgreiða þeim ferðakostnaðinn, svo þarna er leið til þess.“

Helst af öllu vill Ingibjörg fá tækifæri til að hitta móður sína, sem nýlega greindist með minnissjúkdóm á byrjunarstigi. „Ég ætlaði þess vegna að dvelja mikið hjá henni í vetur en krabbameinið hefur sett strik í reikninginn. Það er aldrei góður tími til að fá krabbamein, en ég á mjög erfitt með að sætta mig við að það steli öllum þessum dýrmæta tíma frá okkur mæðgunum. Við tölum mikið saman í síma en mig langar að bjóða henni hingað út í heimsókn líka í eina viku eða tvær, þegar fer að vora. En þá þarf ég að leigja íbúð því mín er svo lítil og óhentug og eins þurfa fleiri ættingjar að koma með því hún getur ekki ferðast ein og ég verð kannski ekki í ástandi til að sinna henni almennilega.“

Með mörg járn í eldinum

Ingibjörg lítur framtíðina björtum augum. Líkt og hún segir sjálf þá er krabbameinið einfaldlega eitt af verkefnum lífsins, og lífið heldur jú áfram þrátt fyrir allt.

„Ég hefði viljað geta lagst í mikil ferðalög en er að fara í aukalega lyfjagjöf sem veldur því að ég verð að mæta á sjúkrahúsið hér í Edinborg á þriggja vikna fresti í heilt ár, þannig að ég verð á nokkurs konar „skilorði“ um sinn. En ég get nú vonandi unnið eitthvað fyrir mér inni á milli meðferða, með skrifum. Ég er einmitt að dunda mér við að skrifa nokkurs konar handbók fyrir einfara sem fá krabbamein, með grínívafi, og vonandi hefur einhver áhuga á að gefa hana út á endanum,“ segir Ingibjörg en hún lætur ekki staðar numið þar, því framundan er að halda aðra skosk/íslenska uppistandshátíð í Reykjavík í febrúar 2020. „Svo er ég að flytja inn skosku hljómsveitina The Proclaimers sem heldur tónleika í Eldborg í apríl. Þannig að ég er vanalega með mörg járn í eldinum og hef upp á síðkastið verið að byggja brú milli Íslands og Skotlands.“

Og svo virðist sem uppistandarinn Ingibjörg muni hafa nóg að gera á næstunni en sem fyrr segir mun hún koma fram á eigin sýningu á Edinborgarhátíðinni, Edinburgh Fringe Festival, í ágúst næstkomandi. Fyrirhugaðar eru níu sýningar frá 17. til 25. ágúst.

„Þótt að sýningin skrifi sig væntanlega að mestu leyti sjálf á næstunni þá þarf ég líka að fara á fullt um leið og meðferðinni lýkur við að fínpússa hana og markaðssetja. En það stefnir í að við verðum þónokkrir Íslendingar  með uppistandssýningar hér í ágúst svo ég verð í góðum félagsskap. Ætli ég verði svo ekki að taka því rólega inni á milli því það tekur tíma að byggja sig aftur upp eftir lyfjameðferð.“

Hér er hægt að leggja ferðasjóði Ingibjargar lið 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Segir undirskriftalistann gegn Bjarna plebbalegan og óvirðingu við lýðræðið

Segir undirskriftalistann gegn Bjarna plebbalegan og óvirðingu við lýðræðið
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Kvöldfréttir Stöðvar 2 í opinni dagskrá á nýjan leik

Kvöldfréttir Stöðvar 2 í opinni dagskrá á nýjan leik