Mikil umræða er í Kína um að koma þurfi böndum á uppgang áhrifavalda í landinu sem sífellt ganga lengra í leit sinni að fleiri fylgjendum og auknum tekjum. CNN greinir frá.
Umræðan hefur farið á flug í kjölfar andláts hinnar 21 árs gömlu Cuihua sem freistaði þess að missa 100 kg af líkamsþyngd sinni með methraða. Cuihua var með þúsundir fylgjenda á Douyin-síðu sinni, sem er kínverska útgáfan af TikTok. Hún var í yfirþyngd, 156 kg en ætlaði með öfgafullum hætti að losa sig við megnið af þeirri þyngd.
Fylgjendur hennar fengu að fylgjast með þessari vegferð hennar, meðal annars erfiðum æfingum í kínverskum Bootcamp-búðum. Dánarorsök áhrifavaldsins liggur ekki fyrir en hún fann skyndilega fyrir vanlíðan í búðunum og var lögð inn á spítala. Þaðan átti hún ekki afturkvæmt.
Þetta er ekki fyrsta skyndilega andlátið hjá kínverskum áhrifavaldi. Á dögunum lést annar áhrifavaldur, Sanqiange, eftir að hafa tekið þátt í drykkjuáskorun sem send var út í beinni útsendingu. Áskorunin fólst í kappdrykku á Baiju, sem er kínverskt áfengi sem svipar til vodka. Drakk áhrifavaldurinn sjö slíkar flöskur á skömmum tíma sem reyndist vera banvænt magn.