
Leigubílstjóri á áttræðisaldri, sem ekið hefur leigubíl í 40 ár, fær ekki endurnýjað rekstrarleyfi vegna þess að hann var dæmdur fyrir vændiskaup árið 2014 vegna brots árið áður. Samdi hann þá við konu um að greiða henni 30 þúsund krónur fyrir kynmök og mælti sér mót við hana. Játaði hann brotið og var dæmdur í 100 þúsund króna sektargreiðslu.
Leigubílstjórinn gamli stefndi ríkinu fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur og krafðist þess að úrskurður innviðaráðuneytisins í máli hans frá árinu 2024 yrði felldur niður. Þar var staðfest ákvörðun Samgöngustofu frá sama ári um að syuja umsókn hans um rekstrarleyfi til leigubílaaksturs.
RÚV greindi frá en dóminn í málinu má lesa hér.
Í lok nóvember árið 2023 lagði bílstjórinn fram umsókn hjá Samgöngustofu um rekstrarleyfi til leigubílaaksturs. Samþykkti hann að Samgöngustofa myndi afla upplýsinga í sakaskrá um hvort hann hefði gerst sekur um refsivert athæfi. Kom þá í ljós að maðurinn hafði verið dæmdur fyrir vændiskaup vegna brots árið 2013.
Bílstjórinn taldi brotið á rétti sínum til atvinnu og benti á að hann hefði aldrei nýtt sér vændisþjónustuna heldur aðeins samið um hana. Auk þess taldi hann sér mismunað á grundvelli þjóðernis þar sem hægt væri að fletta upp í sakavottorði hans en það ætti síður við um erlenda bílstjóra.
Dómari féllst ekki á röksemdir bílstjórans og taldi Samgöngustofu og innviðaráðuneytið hafa verið í fullum rétti til að neita honum um rekstrarleyfi á grundvelli laga um leigubílaakstur þar sem kveðið er á um að bílstjóri skuli hafa gott orðspor og þar sé meðal annars litið til þess hvort hann hafi gerst brotlegur við lög. Taldi dómarinn að ekki væri brotið gegn atvinnufrelsi mannsins sem nú verður að hætta að sinna þessu starfi sem hann hefur sinnt í 40 ár.