

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.
„Við bjóðum Sigríði Margréti velkomna til starfa. Ég tel þetta réttan tímapunkt fyrir félagið að ég stígi nú til hliðar sem forstjóri og feli öðrum að takast á við þær áskoranir og tækifæri sem eru fram undan og hlakka mjög til samstarfsins við Sigríði Margréti,” er haft eftir Grími í tilkynningunni.
„Ég tel það frábært tækifæri að fá að leiða starfsemi Bláa Lónsins hf. í samvinnu við stjórn félagsins og þann góða hóp sem starfar hjá félaginu, þau hafa byggt upp fyrirtæki sem er einstakt á heimsvísu. Ég sé ótal tækifæri í starfsemi félagsins og í íslenskri ferðaþjónustu sem verður mjög áhugavert og gaman að fá að takast á við á næstu árum,” er haft eftir Sigríði Margréti.
Um 800 starfsmenn starfa hjá Bláa Lóninu hf. Undir rekstur félagsins fellur samnefndur áfangastaður og tengd starfsemi á Reykjanesi, þar á meðal hótelin Retreat og Silica. Einnig á og rekur félagið Highland Base í Kerlingarfjöllum og er að byggja upp baðstað, hótel og alhliða ferðaþjónustu í Þjórsárdal auk þess að undirbúa uppbyggingu á Hoffelli í Hornafirði.
Þá á félagið hlutdeild í baðstöðunum Fontana við Laugarvatn, Jarðböðunum við Mývatn, Sjóböðunum á Húsavík og Vök á Egilsstöðum. Einnig hefur félagið á starfstíma sínum þróað og byggt upp húðvörufyrirtækið Blue Lagoon Skincare ehf, sem tekur nú fyrstu skrefin í alþjóðlegum vexti á þeim vettvangi.