

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir í færslu á samfélagsmiðli sínum, Truth Social, að Bandaríkjamenn séu í viðbragðsstöðu vegna fjöldamótmæla í Íran, tilbúnir að koma mótmælendum til bjargar.
Klerkastjórnin í Íran er alræmd fyrir mannréttindabrot og hefur meðal annars beitt baráttukonur gegn réttindum kvenna hörku í gegnum tíðina. Undanfarna daga hafa verið stigvaxandi mótmæli á götum úti í borgum Íran og hefur slegið í brýnu milli mótmælenda og lögreglu.
Helsta orsök ólgunnar núna virðist vera óánægja með hátt vöruverð í kjölfar hruns gjaldmiðilsins Rial. Mótmælendur hafa kallað eftir valdaskiptum í landinu. Samkvæmt frétt BBC hafa sex manns verið drepnir í mótmælunum.
„Ef Íran skýtur og drepur með ofbeldisfullum hætti friðsama mótmælendur, sem er þeirra vani, þá munu Bandaríkin koma þeim til bjargar. Við erum tilbúin í slaginn,“ segir Trump í færslu sinni. Skemmst er að minnast árásar Bandaríkjamanna og Ísraels á kjarnvorkuinnviði í landinu á síðasta ári vegna ásakana um að Íranir séu að þróa kjarnorkuvopn. Mikil spenna hefur verið um áraraðir milli Bandaríkjanna og Írans og hefur hún farið vaxandi í forsetatíð Trumps.