

Leitað var að 77 ára gamalli konu sem féll útbyrðis af skemmtiferðaskipinu Nieuw Statendam um 65 kílómetra norðaustur af eyjunni Kúbu á nýjársdag.
Bandaríska landhelgisgæslan greindi frá þessu í morgun en skipið er í eigu bandaríska skipafélagsins Holland America Line. Leitað var með bæði skipum og þyrlu.
Í tilkynningu kemur fram að skipstjóri Nieuw Statendam hafi látið vita af slysinu og áhöfnin hafi tekið þátt í leitinni. Um átta klukkutímum eftir slysið var leitinni hætt en þá hafði leitarsvæðið spannað um 1790 ferkílómetra.
Skipið, sem tekur um 2700 farþega, hafði lagt af stað frá Fort Lauderdale í Flórídafylki þann 27. desember í vikuferð um Karíbahafið. Vegna slyssins var ákveðið að hætta við að sigla til Key West í Flórída eins og ferðaáætlunin sagði til um.
„Með mikilli sorg staðfestum við að gestur á Nieuw Statendam fór fyrir borð fyrr í dag á siglingu norður af Kúbu,“ segir í tilkynningu Holland America Line. „Fjölskylduaðstoðarteymi okkar styður fjölskyldu gestsins og hugur okkar eru hjá ástvinum á þessum erfiða tíma.“
Ekki hefur verið greint frá nafni konunnar. Þá hefur heldur ekki verið greint frá því hvað olli því að hún féll útbyrðis, ef það er yfir höfuð vitað.