

Lilju Sigríði Jónsdóttur, lögfræðingi og verkefnastjóra ferðamála hjá Austurbrú, var tilkynnt er hún var í fæðingarorlofi að starfssamningur hennar hjá stofnuninni yrði ekki endurnýjaður. Hún hafði flust búferlum frá Noregi til Egilsstaða í trausti fyrirheita um að starfið sem hún var ráðin í væri framtíðarstarf.
Heimildin greinir frá þessu. Austurbrú er sjálfseignarstofnun með aðsetur á Egilsstöðum, sem ætlað er að vinna að hagsmunamálum íbúa á Austurlandi og veita samræmda og þverfaglega þjónustu tengda atvinnulífi, menntun og menningu. Sveitarstjórnarfulltrúar á Austurlandi eiga sæti í stjórn félagsins. Venja að ráða í störf hjá félaginu til eins árs í senn en Lilju var tjáð að það væri formsatriði og ráðning hennar væri hugsuð til frambúðar.
Annað hljóð kom í strokkinn er Lilja tilkynnti yfirmönnum sínum um að hún væri ófrísk og hyggðist taka eitt ár í fæðingarorlof. Ágreiningur kom upp milli hennar og yfirmanns hennar um lengd fæðingarorlofsins, en yfirmaðurinn taldi hana taka of langt fæðingarorlof. Lilja gekk á eftir yfirmanni sínum um að fá framlengdan samning fyrir sumarfrí og segir hún að það hafi verið hennar skilningur að málið væri í vinnslu. Það dróst hins vegar og þann 24. nóvember var henni, þvert ofan í fyrri loforð, tilkynnt um að starfssamningur hennar yrði ekki endurnýjaður.
Óheimilt er að segja konum upp í fæðingarorlofi en málið er á gráu svæði þar sem starfssamningur við Lilju var ekki endurnýjaður.
Sjá nánar hér.