fbpx
Föstudagur 12.september 2025
Fréttir

Kristrún stefnir að því að Halla megi ráða sér aðstoðarmann eins og ráðherrar fá – Ókeypis háskólanám verður bara fyrir fólk innan EES

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 9. september 2025 17:49

Halla Tómasdóttir forseti Íslands setti Alþingi fyrr í dag. Í bakgrunni má sjá Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra. Mynd: Skjáskot-RÚV.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir 157. löggjafarþing, sem sett var fyrr í dag, hefur verið birt í heild sinni. Þar kennir ýmissa grasa eins og fram hefur komið í fjölmiðlum og í kynningu formanna ríkisstjórnarflokkanna. Ýmis nýmæli verða lögð fram meðal annars að breyta lögum í því skyni að heimilt verði að ráða sérstakan aðstoðarmann forseta Íslands sem verður þá ráðinn á sömu forsendum og aðstoðarmenn ráðherra. Einnig verður tekið fyrir það að háskólanemar frá löndum utan EES þurfi ekki að borga skólagjöld í opinberum háskólum.

Í þingmálaskránni kemur fram að Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra muni í nóvember næstkomandi leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um laun forseta Íslands og lögum um Stjórnarráð Íslands. Segir að breytingarnar snúi að því að í undirbúningi sé að kveða á um rafrænar undirskriftir forseta Íslands og ráðherra á vettvangi ríkisráðs. Þá sé til athugunar að gera ráð fyrir að rafrænar undirskriftir geti átt sér stað þegar viðkomandi sé staddur erlendis. Við það muni draga úr hlutverki og launagreiðslum til handhafa forsetavalds. Óháð því standi til að lækka þær greiðslur út frá því sjónarmiði að líta megi á handhafaskyldurnar sem hluta af almennum embættisskyldum. Minna ber á i þessu samhengi að handhafar forsetavalds, í fjarveru forsetans, eru forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar.

Í þingmálaskránni segir að í frumvarpinu verði gert ráð fyrir þeim möguleika að við forsetaembættið sé starfandi sérstakur aðstoðarmaður forseta, sem ráðinn verði án auglýsingar og láti af störfum eigi síðar en forsetinn.

Eins og ráðherra

Það hefur tíðkast í áraraðir að ráðherrar geti ráðið sér aðstoðarmenn á þessum forsendum, það er að segja að þeir séu ráðnir án auglýsingar og verði að láta af störfum í seinasta lagi á sama tíma og viðkomandi ráðherra.

Helstu rökin á bak við að ráðherrar geti ráðið sér aðstoðarmenn eru að með því fái þeir pólitíska bandamenn með sér inn í ráðuneytið til að skapa ákveðið mótvægi við þá embættismenn sem þar starfa. Aðstoðarmenn geta líka veitt ráðherrum ráðgjöf út frá pólitísku sjónarhorni á meðan það er hlutverk embættismanna að aðstoða ráðherra fyrst og fremst út frá eigin sérþekkingu á málefnum viðkomandi ráðuneytis.

Þar sem frumvarpið hefur ekki verið lagt fram liggja ekki fyrir rökin á bak við nauðsyn þess að hægt verði að ráða aðstoðarmann fyrir forsetann, sem gegnir embætti sem á að heita ópólitískt, á sömu forsendum og pólitískt skipaða aðstoðarmenn ráðherra.

Breytingar

Þegar hefur verið greint frá, í fjölmiðlum og kynningu formanna stjórnarflokkanna, ýmsum öðrum áformum í þingmálaskránni en þó ekki þeim sem hér hafa verið nefnd. Meðal annarra mála í þingmálaskránni sem ekki hefur mikið farið fyrir má nefna sem dæmi að Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra hyggst leggja fram frumvarp til laga um rýni á fjárfestingum erlendra aðila vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu. Með frumvarpinu verða lögð til ný heildstæð lög um þetta viðfangsefni.

Meðal mála sem Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra hyggst leggja fram er frumvarp til laga um breytingu á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu. Með frumvarpinu, sem er endurflutt, er lagt til að heimila kirkjugörðum að innheimta gjald fyrir hluta af starfsemi sinni.  Segir í þingmálaskránni að til þess að bregðast við erfiðri stöðu kirkjugarðanna sé nauðsynlegt að þeim verði heimilt að innheimta sérstakt gjald til að standa undir þessum rekstri. Hún hyggst einnig leggja fram ýmsar breytingar í málefnum útlendinga en meðal þess er frumvarp til breytinga á lögum útlendinga. Samkvæmt því verða meðal annars gerðar breytingar á fyrirkomulagi atvinnuþátttöku námsmanna, frá löndum utan EES, á grundvelli laganna til að bæta bæði aðgengi þeirra að vinnumarkaði en að sama skapi skerpa á skilyrðum þeirrar atvinnuþátttöku og stemma stigu við óeðlilegri ásókn sem núgildandi ákvæði laganna hafi skapað. Meðal annars verði gerðar ríkari kröfur við útgáfu dvalarleyfa til atvinnuleitar í kjölfar útskriftar. Þá verði gerð breyting á heimild til fjölskyldusameiningar fyrir aðstandendur námsmanna.

Meðal þess sem mun koma frá Ölmu Möller heilbrigðisráðherra er frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar. Meðal breytinga í frumvarpinu er að biðtími eftir sjúkratryggingu við flutning til landsins verður styttur og greiðsluþátttaka vegna veikinda og slysa utan EES verður takmörkuð. Lögum um réttindi sjúklinga verður breytt í því skyni að gera bann við beitingu nauðungar að meginreglu en undanþágur verða frá reglunni að uppfylltum skilyrðum. Alma mun einnig leggja fram frumvarp til breytinga á ýmsum lögum til að bregðast við lyfjaskorti. Samkvæmt því mun m.a. Lyfjastofnun fá heimildir til að bregðast við lyfjaskorti og lágmarka áhrif hans á sjúklinga, breytingar verða á ákvæðum er varða undanþágulyf, ákvæði verður bætt við um lyfjafræðilega þjónustu í lyfjabúðum og einnig ákvæði sem heimilar lyfjafræðingum að ávísa bóluefnum. Alma mun einnig leggja til að sambærilegt gjald verði lagt á tóbaksvörur og nikótínpúða

Borga skólagjöld

Loks má nefna að meðal mála sem Logi Már Einarsson, menningar-, nýsköpunar og háskólaráðherra mun leggja fram er frumvarp til breytinga á lögum um opinbera háskóla en samkvæmt því mun slíkum skólum og einkareknum háskólum, sem fá óskert framlög frá ríkinu, verða heimilt að leggja skólagjöld á nemendur sem koma frá löndum utan EES en það tengist fyrirhuguðum breytingum á reglum um fjárframlög til háskóla en framvegis munu þau ekki fylgja þessum nemendahópi eins og verið hefur.

Frumvarp þess efnis var kynnt í tíð Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur sem fór með háskólamál í síðustu ríkisstjórn en það var aldrei lagt fram á þingi.

Þessi áform Loga koma í kjölfar fregna af aukinni ásókn fólks utan EES í háskólanám á Íslandi og hefur það að hluta til verið rakið til myndbanda á TikTok þar sem Ísland er kynnt sem land þar sem háskólanám sé ókeypis og auðvelt sé að fá dvalarleyfi. Eins og DV greindi frá í gær er málið þó ekki svo einfalt en þó er rétt farið með þá staðreynd í myndböndunum að engin skólagjöld séu í opinbera háskóla á Íslandi fyrir erlenda nema. Nái frumvarpið fram að ganga mun það hins vegar breytast hvað varðar nemendur utan EES.

TikTok myndböndin um ókeypis háskólanám á Íslandi eru bæði röng og rétt

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Þekkt leyniskytta telur að skotárásin á Charlie Kirk hafi verið vel skipulögð

Þekkt leyniskytta telur að skotárásin á Charlie Kirk hafi verið vel skipulögð
Fréttir
Í gær

Rekinn úr starfi vegna ummæla um Charlie Kirk í beinni útsendingu

Rekinn úr starfi vegna ummæla um Charlie Kirk í beinni útsendingu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Áhrifamaður í Bandaríkjunum segir hugsanlegt markmið Trump að hernema Ísland

Áhrifamaður í Bandaríkjunum segir hugsanlegt markmið Trump að hernema Ísland
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vægi Bandaríkjanna hefur minnkað í breyttum heimi og stórveldin eru þrjú

Vægi Bandaríkjanna hefur minnkað í breyttum heimi og stórveldin eru þrjú