Tuttugu og tveggja ára gamall maður hefur verið ákærður vegna tveggja líkamsárása sem hann er sagður hafa framið við íþróttahús Gróttu að Suðurströnd 8 á Seltjarnarnesi fyrir fjórum árum, þegar ákærði var 18 ára gamall.
Ákæruliðir eru tveir en unglingurinn réðist á tvo aðra menn. Annars vegar er hann ákærður fyrir líkamsárás, fyrir að hafa veist með ofbeldi að manni og slegið hann með krepptum hnefa í höfuð þannig að brotaþoli féll aftur fyrir sig í götuna með þeim afleiðingum að hann hlaut handarbrot, bólgu yfir vinstra kinnbeini og hrufl á hægri hendi.
Hins vegar er hann ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, á sama tíma, í kjölfar af hinni árásinni. Veittist hann með ofbeldi að öðrum manni, sló hann hnefahöggi í höfuðið og stakk hann með hnífi í vinstri síð. Hlaut brotaþoli langan og djúpan skurð á brjóstkassa og mar á lunga.
Hvor brotaþoli fyrir sig krefst 2,6 milljóna króna í miskabætur.
Málið verður þingfest við Héraðsdóm Reykjavíkur þann 15. september næstkomandi.