Á morgun, mánudag, verður réttað yfir pólskum manni í Héraðsdómi Reykjavíkur, sem ákærður er fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot.
Manninum, sem er 35 ára að aldri, er gefið að sök að hafa staðið að innflutningi á 5.200 ml af amfetamínbasa með styrkleika 37-58%, sem samsvarar tveimur til þremur kg af hreinu amfetamíni.
Ákærði er sagður hafa flutt efnin hingað til lands með póstsendingu frá Póllandi. Nafngreindur aðili hér á landi var fyrir tilstuðlan ákærða skráður viðtakandi sendingarinnar. Hún barst hingað til lands 30. maí á þessu ári.
Sama dag fékk ákærði hinn skráða viðtakanda til að koma með sér í póstafgreiðslustöð Iceatransport við Selhellu 9 í Hafnarfirði, í því skyni að taka á móti sendingunni. Þetta gekki ekki þar sem sendingin var enn ótollafgreidd.
Lögregla fjarlægði amfetamínbasann úr sendingunni og kom fyrir gerviefnum. Þann 2. júní 2025 var sendingin borin út til skráðs viðtakannda og sótti ákærði sendinguna til hans síðar þann dag og fór með hana að dvalarstað sínum að Hagamel í Reykjavík. Þar var ákærði handtekinn í kjölfarið.
Hann hefur síðan setið í gæsluvarðhaldi á Litla-Hrauni, sem er skráður dvalarstaður hans í ákærunni.