Snyrtistofum á Íslandi hefur fjölgað mikið síðustu ár og sumar þeirra starfa ekki samkvæmt lögum og reglum. Frá þessu var greint í hádegisfréttum RÚV.
Fréttaskýringarþátturinn Kveikur fylgdi lögreglu og heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur í eftirlitsferðir á snyrtistofur í vor. Í hádegisfréttum RÚV var spilað hljóðbrot þar sem lögreglumaður í eftirliti á stofu í miðborg Reykjavíkur ræddi við eiganda stofunnar. Þar kom á daginn að þessi tiltekna stofa var ekki með starfsleyfi Heilbrigðiseftirlitsins. Þar var ekki heldur starfandi snyrtifræðingur. Hollustuhættir voru einnig ófullnægjandi þannig að stofunni var lokað á staðnum.
Uppgangur á snyrtistofumarkaðnum á sér myrkar hliðar. Víetnamskt starfsfólk á sumum þeirra lýsir því að hafa greitt mjög háar fjárhæðir fyrir að fá að koma til Íslands til að vinna. Fólk lýsir svikum og jafnvel misneytingu á stofunum.
DV greindi frá því í vor að dæmi væri um að starfsfólk á snyrtistofum greiddi vinnuveitendum 300 þúsund krónur á mánuði í einskonar skatt.
Fjallað verður um málið í fréttaskýringaþættinum Kveikur á RÚV í kvöld kl. 20:15.