Wojciech var sakfelldur fyrir að hafa staðið að innflutningi á samtals 5,2 lítrum af amfetamínbasa, sem hafði 37-58% styrkleika. Ætla má að úr basanum hefði verið unnt að framleiða 2-3 kíló af hreinu amfetamíni en yfir 20 kíló af útþynntu efni.
Amfetamínbasinn kom hingað til lands með póstsendingu frá Póllandi þann 30. maí síðastliðinn.
Sjá einnig: Hefur verið á Litla-Hrauni í allt sumar eftir bíræfið smygl á amfetamínbasa
Var sendingin skráð á nafngreindan einstakling hér á landi og fékk Wojciech hinn skráða viðtakanda til að koma með sér í póstafgreiðslustöð þennan sama dag. Þeir þurftu hins vegar frá að hverfa þar sem sendingin var enn ótollafgreidd.
Lögregla fjarlægði amfetamínbasann úr sendingunni og kom fyrir gerviefnum. Þann 2. júní síðastliðinn var sendingin borin út til skráðs viðtakanda og sótti ákærði sendinguna til hans síðar þann dag og fór með hana að dvalarstað sínum í Reykjavík þar sem hann var svo handtekinn.
Í dómnum kemur fram að efnið hafi verið falið í málmrörum sem áttu að mynda rúmgrind. Sendingin vakti strax grunsemdir tollgæslunnar og staðfestu rannsóknir að um amfetamín hefði verið að ræða.
Maðurinn neitaði sök fyrir dómi og hélt því fram að hann hefði talið sig vera að taka á móti rúmi. Hann breytti þó framburði sínum ítrekað við rannsókn málsins og sagðist á einum tímapunkti hafa sótt pakkann að beiðni óþekktrar konu. Dómurinn taldi frásögn hans ótrúverðuga og niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að hann hefði sjálfur skipulagt móttöku sendingarinnar.
Í dóminum er vísað til magns og styrkleika efnanna, en sem fyrr segir hefði verið hægt að framleiða 2-3 kíló af hreinu amfetamíni úr basanum en um 24 kíló af amfetamíni með 10% styrkleika.
Til frádráttar fangelsisdóminum kemur gæsluvarðhald sem hann hefur setið í frá 3. júní síðastliðnum. Auk þess var honum gert að greiða málsvarnarlaun verjanda síns að fjárhæð 2,7 milljónir króna og tæpar 911 þúsund krónur í sakarkostnað.