Leigjandi á Hólmavík birtir mynd af gluggauppstillingu sem hefur valdið miklu fjaðrafoki. Sveitarstjórinn sendi bréf á leigjendur og skipaði þeim að taka uppstillinguna niður.
Í gær var greint frá því í bb.is að sveitarstjórn Strandabyggðar hefði samþykkt að leigjandi í húsinu Hnyðju á Hólmavík skildi taka niður gluggauppstillingu í síðasta lagi á morgun, 18. september.
Um er að ræða uppstillingu sem varðar ástandið á Gaza. Með skilaboð eins og „Gaza sveltur“, „End 77 years of oppression“ og „Food has become a weapon. Gaza´s children are starving.“
Á fundinum var rætt um málið og sagði Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri, að þetta snerist um hvernig nýta mætti opinbera byggingu. Það er byggingu í eigu sveitarfélagsins. Biðja þyrfti um leyfi til að hengja upp auglýsingar á borð við þessar.
Matthías Sævar Lýðsson, oddviti minnihluta, sagði að setja þyrfti ramma um hvað mætti vera sjáanlegt í húsum. Hann væri ánægður með þann hug sem sýndur væri en hryggur yfir ástæðunum.
„Frægasti gluggi dagsins – í Strandabyggð,“ segir leigjandi sem birtir mynd af glugganum á samfélagsmiðlum.
Einnig birtir hann bréf sem barst frá sveitarstjóranum vegna málsins. En þar segir meðal annars:
„Nú hefur ykkur áður verið bent á að, óháð hvaða skoðanir við sem persónur höfum á grimmilegum árásum Ísraelsmanna á Palestínu og þær hörmulegu afleiðingar sem þær hafa fyrir almenning á Gasa, þá gengur ekki að setja fram áróður í glugga Hnyðju, sem er bygging í eigu Strandabyggðar. Málið var rætt lauslega á sveitarstjórnarfundi í gær og ég bið þann sem stendur fyrir þessu að fjarlægja þessar upplýsingar og muni úr glugganum, hið fyrsta,“ segir í bréfi Þorgeirs.
Greinir leigjandinn frá því að þrýst hafi verið á leigjendur um nokkurt skeið. Það er síðan í sumar. Fyrst hafi komið tilskipun um að taka niður fána Palestínu sem hafði verið í glugganum í nokkrar vikur í júní.
Þá greinir hann frá fyrirspurnum sem hann sendi á sveitarstjórn um málið. Meðal annars hvort að sveitarstjórn líti á upplýsingamiðlun um hryllilegt þjóðarmorð í Palestínu sé „áróður“ og hvort að fáni Palestínu sé það. Einnig hvaða önnur málefni sem tengist minnihlutahópum, mannréttindabrotum eða þjóðarmorði hafi verið skilgreind sem áróður og megi ekki vera úti í glugga í húsnæði í eigu sveitarfélagsins.